„Það hafa orðið töluverðar munsturbreytingar í matarinnkaupum fólks, það er greinilegt að nú sækir almenningur í það sem er ódýrt en lætur ekki lengur eftir sér að kaupa dýran lúxusvarning," segir Óðinn Svan Geirsson verslunarstjóri í Bónus við Langholt á Akureyri. Bónus rekur tvær verslanir í bænum þannig að ekki er gott að bera saman t.d. október í ár og í fyrra, innkaupin dreifast nú á tvær verslanir og þá nefnir Óðinn að í fyrrahaust, eftir að kreppan var nýskollin var mikið um að fólk hamstraði matvæli.
„Við sjáum það að fólk lætur minna eftir sér en áður og því höfum við kappkostað að bjóða upp á ódýra vöru sem viðskiptavinir hafa tekið vel," segir Óðinn. Sem dæmi má nefna að bógur selst grimmt, en læri síður. Fólk velur ódýrari tegundir, t.d. hreyfast varla þekkt merki þegar kemur að bleyjum, en hinar ódýrari eru valdar í auknum mæli. Áður leit fólk ekki við þessum ódýrari merkjum. „Ýmsar vörur sem nú eru orðnar of dýrar hafa dottið út hjá okkur og við höfum í staðinn tekið inn ódýrari vörur. Við reynum að vera með fólkinu í þessu, sjá hvað það vill og högum okkar innkaupum eftir því," segir Óðinn.
Hallur Geir Heiðarsson verslunarstjóri í Nettó á Glerártorgi segir að ekki hafi orðið vart samdráttar í matvöruverslun, en vissulega hafi breyting orðið á neyslumynstri. Þannig leiti fólk frekar í ódýrari vörur og reyni hvað það getur að nýta sér þau tilboð sem bjóðast hverju sinni. „Nú svo má segja að ýmis konar innfluttur varningur sem getur flokkast undir lúxus er alveg dottinn út, en þá á ég við dýra merkjavöru, slíkt er ekki í boði lengur, fólk var hætt að kaupa þannig varning þannig að hann hefur bara hægt og hljótt horfið úr hillunum," segir Hallur Geir. Íslenskar vörur renni út eins og heitar lummur, viðskiptavinir hafi í auknum mæli snúið sér að því að kaupa innlenda vöru. Hann segir að aukning hafi verið í verlsun hjá Samkaup á Akureyri .
Hjörtur Sigurðsson verslunarstjóri hjá Samkaup Úrval í Hrísalundi tekur í sama streng, segir fólk leita mikið í tilboð og reyna að gera hagkvæm innkaup. „Það er greinilegt að fólk velur ódýrari vörur, það þurfa allir að borða, það hefur ekki orðið samdráttur í verslun, breyting aftur á móti í þá átt að fólk dregur úr innkaupum á dýrum vörum," segir Hjörtur.