Ekki lengur spurning hvort heldur hvenær

Það er hamlandi fyrir framleiðslufyrirtæki sem starfa á innlendum markaði að vera með starfsstöðvar á landsbyggðinni, síhækkandi flutningskostnaður er að sliga fyrirtækin. Gunnlaugur Eiðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Kjarnafæðis segir stöðu flestra framleiðslufyrirtækja langt í frá góða, raunar afleita víða og fjármagnskostnaður orðinn alltof hár.  Fyrir því finni allir sem eru í einhverjum rekstri, hvort heldur sem eru fyrirtæki eða einstaklingar og virðist ekkert vera að lagast.  

Gunnlaugur nefnir að flutningamálin séu sér kapítuli og geri fyrirtækjum á landsbyggðinni sérstaklega erfitt fyrir. Megi þá hækkun rekja til offjárfestinga erlendis, sígandi gengis krónunnar og hækkandi olíuverðs. Þessi þróun er farin að hafa veruleg áhgrif á þau fyrirtæki sem starfa á landsbyggðinni.  Benti Gunnlaugur á að Kjarnafæði hefði á liðnum árum komið að uppbyggingu starfsstöva með heimamönnum víðsvegar á landsbyggðinni. Má þar nefna Vopnafjörð þar sem Sláturfélag Vopnafjarðar starfar, Blönduós þar sem SHA-afurðir starfar, Akureyri og Svalbarðseyri auk þess sem fyrirtækið er með starfsemi á Akranesi.

"Það hafa orðið gríðarlegar hækkanir á flutningum á liðnum mánuðum.  Ef við umreiknum þessa hækkun flutningskostnaðar milli starfsstöðva, að aðalmarkaði sem er höfuðborgarsvæðið, þar sem um 80% okkar markaðar er, yfir í leiguverð á iðnaðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, kemur í ljós að við gætum leigt fullnægjandi húsnæði á besta stað í Reykjavík. Ef fram fer sem horfir er það því miður ekki spurning hvort heldur hvenær við og fleiri framleiðlsufyrirtæki neyðumst til að flytja okkar starfsemi alfarið á höfuðborgarsvæðið," segir Gunnlaugur Eiðsson í Kjarnafæði.

Nýjast