Samkvæmt samtölum kæmi helst til greina lóð á svæði norðan við Krossanes undir fyrirhugaða starfsemi, segir m.a. í erindi GV Grafa. Í bókun skipulagsnefndar kemur m.a. fram að í Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 er svæðið sem óskað er eftir skilgreint sem óbyggt svæði og ekki gert ráð fyrir landnotkun undir atvinnustarfsemi. Þar sem ekki hefur verið tekin afstaða til landnotkunar á umbeðnu svæði og ekki fyrirhuguð endurskoðun þess á næstunni er erindinu hafnað. Einnig er bent á að mikið er af skráðum fornleifum á svæðinu norðan Krossaness í landi Þórsness sem að mestu er á erfðafestu en að hluta til á eignarlandi. Samhljóða erindi var hafnað á fundi skipulagsnefndar þann 28. maí 2008 og málinu vísað til vinnslu svæðisskipulags Eyjafjarðar sem nú stendur yfir en þar munu efnistökumál verða skoðuð sérstaklega með framtíðarlausn fyrir sveitarfélögin í Eyjafirði í huga. Skipulagsnefnd bendir á, skv. 16 gr. skipulags- og byggingarlaga, en að afloknum bæjarstjórnarkosningum skal bæjarstjórn meta hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulagið.
GV Gröfur sendu fyrst inn erindi í lok maí sl. þar sem óskað var eftir 10-20.000 m² lóð sem liggur að sjó þar sem unnt yrði að dæla möl á land upp af hafsbotni til vinnslu og geymslu. Fram kom að fyrirtækið myndi sjá um landmótun og fyllingar sem nauðsynlegar yrðu á lóðinni. Skipulagsnefnd hafnaði efnisgeymslu í því landi sem Akureyrarbær hefur yfirráð yfir og vísaði málinu til vinnslu svæðisskipulags Eyjafjarðar.
GV Gröfur sendu aftur erindi til skipulagsnefndar í síðasta mánuði og ítrekaði ósk um lóð fyrir atvinnustarfsemi undir malarefni sem tekið yrði úr sjó. Farið var fram á að fá skýr svör við því sem allra fyrst hvort Akureyrarbær geti útvegað lóð sem hentar þessari starfsemi. Skipulagsnefnd frestaði erindinu og óskaði eftir nánari upplýsingum frá umsækjanda um umfang og eðli fyrirhugaðrar starfsemi. Á síðasta fundi nefndarinnar var erindinu sem hafnað, sem fyrr segir.