Ekkert stöðvar Akureyri - Komið í 8-liða úrslit bikarkeppninnar

Það fær ekkert stöðvað Akureyri Handboltafélag þessa dagana en liðið er komið áfram í 8-liða úrslit Eimskipsbikarkeppni karla í handbolta, eftir tíu marka sigur gegn Aftureldingu í kvöld, 30:20 á heimavelli. Þetta var áttundi leikur norðanmanna í vetur og þeir virðast hreinlega ekki kunna að tapa því allir hafa þeir unnist.

 

Sigurinn var þó ekki jafn öruggur og tölurnar gefa til kynna því gestirnir voru lengi vel inn í leiknum. Frábær endasprettur hjá heimamönnum gerði hins vegar útaf við gestina.

 

Leikurinn var stál í stál fyrstu tuttugu mínúturnar og aldrei munaði meira en einu marki á liðunum. Heimamenn fóru að síga framúr síðustu tíu mínútur hálfleiksins og náðu tveggja marka forystu, 9:7 og 10:8. Akureyri náði svo þriggja marka forystu fjórum mínútum fyrir leikhlé og jók muninn í fjögur mörk áður dómarinn flautaði til hálfleiks. Staðan 13:9 í leikhlé.

 

Leikmenn Aftureldingar komu sterkir inn í seinni hálfleikinn og skoruðu fyrstu tvö mörkin og staðan 13:11. Gestirnir náðu að minnka muninn niður í eitt mark í stöðunni 17:16 en þá kom góður kafli hjá Akureyrarliðinu sem náði fimm marka forystu, 22:17, þegar stundarfjórðungur var eftir. Norðanmenn keyrðu svo á gestina undir lokin með frábærum kafla og unnu að lokum tíu marka sigur, 30:20.

Mörk Akureyrar: Guðmundur Hólmar Helgason 8, Heimir Örn Árnason 4, Oddur Gretarsson 4, Daníel Einarsson 4, Geir Guðmundsson 3, Hörður Fannar Sigþórsson 2, Guðlaugur Arnarsson 2, Bjarni Fritzson 1, Hlynur Elmar Matthíasson 1, Bergvin Gíslason 1. 

Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 19, Stefán Guðnason 2

Mörk Aftureldingar: Eyþór Vestmann 4, Bjarni Aron Þórðarson 4, Arnar Theódórsson 3, Aron Gylfason 3, Jón Andri Helgason 2, Daníel Jónsson 2, Haukur Sigurvinsson 1, Pétur Júníusson 1.

Varin skot: Hafþór Einarsson 17, Kristófer Guðmundsson 2 

Nýjast