Ekið á gangandi vegfaranda

Rétt upp úr klukkan 14:00 í dag var ekið á gangandi vegfaranda á gatnamótum Brekkugötu, Gránufélagsgötu og Oddeyrargötu, gatnamótunum við Amtsbókasafnið. Sá sem ekið var á er karlmaður á sjötugsaldri og var hann fluttur meðvitundarlaus með sjúkrabíl á slysadeild. Talið er að hann hafi verið nokkuð slasaður. Bíllinn sem ók á manninn var að koma niður Oddeyrargötuna og var kominn rétt yfir gatnamótin þegar hann ók á manninn. Þarna er 30 km hámarkshraði og segir lögregla ekkert  benda til að bifreiðin hafi verið á mikilli ferð.

Réttum klukkutíma áður, eða upp úr kl 13:00, varð slys í tímatöku fyrir Sjallaspyrnuna sem var á akstursíþróttasvæði Bílaklúbbs Akureyrar. Vélsleðamaður missti sleðann út af svokallaðri bremsubraut og ofan í stóran skurð sem er um 4 m breiður. Sleðamanninum tókst að kasta sér af sleðanum áður en hann skall í skurðbakkann hinumegin, en meiddist engu að síður. Kvartaði hann undan meiðslum í baki og var hann fluttur á slysadeild með sjúkrabíl.

Sjúkrabíll og lögregla voru kölluð að sundlauginni á Illugastöðum nú eftir hádegið vegna slyss sem þar varð. Ungur drengur datt og slasaðist og var hann einnig um tíma í andnauð. Drengurinn var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild á Akureyri.

Nýjast