Efnt til Fiskidagshlaups 6. ágúst

Í tilefni af 10 ára afmæli Fiskidagsins mikla á Dalvík verður föstudaginn 6. ágúst boðið upp á almenningshlaup sem skokkhópurinn Eyrarskokk á Akureyri stendur fyrir í samstarfi við Fiskidaginn. Ekkert skráningargjald verður í hlaupið. Í fyrsta lagi verður boðið upp á að skokka Svarfaðardalshringinn sem mælist tæpir 26 km (hlaupið frá Víkurröst á Dalvík fram austanverðan Svarfaðardal, yfir Tungurnar og niður dalinn vestanverðan, hlaupið upp að Böggvisstöðum og endað við Sundlaug Dalvíkur).

Í öðru lagi 10 km hlaup þar sem hlaupið verður eftir þjóðveginum frá bænum Steindyrum í vestanverðum Svarfaðardal og endað við Sundlaug Dalvíkur og í þriðja lagi 3 km skemmtiskokk þar sem hlaupið verður frá Syðra Holti í vestanverðum Svarfaðardal eins og leið liggur til Dalvíkur og eins og í hinum vegalengdunum hlaupið upp afleggjarann að Böggvisstöðum og endað við Sundlaug Dalvíkur. 

Startað verður í Svarfaðardalshringinn klukkan 14.30 föstudaginn 6. ágúst frá Víkurröst. Klukkustund síðar, kl. 15.30, verður startað í 10 km hlaupið og kl. 16 í skemmtiskokkið. Ath. að þátttakendur í 10 km og 3 km skemmtiskokki þurfa sjálfir að koma sér á upphafsstaði hlaupanna frammi í Svarfaðardal, en þeir verða glögglega merktir. Tímataka verður í bæði 10 km og Svarfaðardalshringnum og verða drykkjarstöðvar fyrir hlaupara í þessum vegalengdum. Ölgerðin styrkir hlaupið með því að leggja til drykki fyrir hlauparana.

Verðlaun verða veitt fyrir þrjú fyrstu sætin í karla- og kvennaflokki í bæði Svarfaðardalshringnum og 10 km hlaupinu. Þeir sem vilja hlaupa annað hvort Svarfaðardalshringinn eða 10 km eru beðnir að skrá sig með því að senda tölvupóst á Óskar Þór Halldórsson oskarth@ruv.is eða Einar Eyland eey@eimskip.is. Skráningar skulu hafa borist eigi síðar en 31. júlí. Þátttakendur í skemmtiskokkið þurfa ekki að skrá sig. Þeir mæta einfaldlega á upphafsstað hlaupsins á móts við Syðra Holt þar sem þeim verður startað kl. 16. Númer hlaupara í Svarfaðardalshringnum og 10 km hlaupinu verða afhent við Víkurröst á Dalvík frá kl. 12 til 14 föstudaginn 6. ágúst.

Nýjast