Knattspyrnufélagið Draupnir frá Akureyri gæti hafa sett met fyrir helgi þegar hvorki fleiri né færri en 62 leikmenn áttu félagaskipti í félagið áður en félagskiptaglugginn lokaði á miðnætti föstudagsins 15. maí. Þarna er um að ræða bæði knattspyrnumenn og konur því félagið teflir fram karlaliði og kvennaliði í sumar og leikur félagið heimaleiki sína í Boganum.
,,Þarna er líklega um met í félagaskiptum í meistaraflokki að ræða, því við höfum sjaldan áður tekið inn ný félög í meistaraflokki karla og kvenna fyrir sama keppnistímabil. Það er næstum óhætt að fullyrða að þarna er um met að ræða yfir tveggja daga tímabil þegar 61 af þessum 62 félagaskiptum gengu í gegn," sagði Klara Bjartmarz á skrifstofu KSÍ í samtali við Vikudag.
Karlalið Draupnis tekur þátt í 3. deild en kvennaliðið leikur í 1. deild. Þjálfari beggja liða er knattspyrnukappinn gamalkunni Hlynur Birgisson en hann hyggst einnig leika með karlaliðinu.