Þetta kemur fram í viðtali við Sigmund á vef Norðlenska. Hann segir að í kjölfar bankahrunsins í október hafi neytendur leitað í ríkari mæli eftir ódýrari kjötvörum og þeirri eftirspurn verið svarað. Í desember keypti fólk hins vegar hinn hefðbundna íslenska jólamat og sparaði að því er virðist ekki við sig. Í desember fóru yfir hundrað tonn af hangikjöti frá Norðlenska og var lambið í heiðurssæti fyrir þessi jól. Einnig seldist vel af hamborgarhryggjum og öðrum tegundum af svínakjöti.
Fjármagnsliðir hækkuðu umtalsvert á síðasta ári og á síðari helmingi ársins hafi ýmsir kostnaðarliðir hækkað upp úr öllu valdi. Í því sambandi nefnir Sigmundur flutningskostnaðinn en einnig hækkaði plast og ýmis önnur innflutt aðföng í verði í takti við hraðlækkandi gengi krónunnar. Þá hækkaði fóðurkostnaður upp úr öllu valdi og sömuleiðis áburðarverð og til viðbótar er spáð enn frekari hækkun á áburði í vetur, að sögn Sigmundar. "Ástæðan er fyrst og fremst veik staða krónunnar. Þetta er grafalvarlegt mál, enda er áburðurinn langstærsti kostnaðarliður í rekstri sauðfjárbúa."
Sigmundur segir að rekstur Norðlenska fyrir fjármagnsliði hafi gengið vel á árinu 2008 og verið í takti við áætlanir. Hann segir
þó ekkert launungarmál að mjög erfitt sé að gera rekstraráætlanir fyrir árið 2009. Sigmundur segist óttast að
áður en langt um líður muni margir bændur hreinlega gefast upp í sínum rekstri, enda sé vegið að bændastéttinni úr
ýmsum áttum. „Bændur eiga sér því miður fáa málsvara og eru að því er virðist vinsælt skotmark. Núna
er ráðist að bændum með nýju matvælafrumvarpi og einnig er talað fullum fetum um ESB-aðild án þess að menn hafi sett sér
samningsmarkmið eða greint hvaða áhrif aðild að Evrópusambandinu hafi á íslenskan landbúnað. Íslenska stjórnkerfið hefur
til þessa lítið tillit viljað taka til Akureyrar, hvað þá Raufarhafnar eða Þórshafnar. Er þá líklegt að Brussel vilji
taka tillit til okkar hér norður í Atlantshafi? Ég vil hins vegar ekki útloka að menn skoði hvað felist í aðild Íslands að
Evrópusambandinu, en það er grundvallaratriði að lagt verði fram greinargott yfirlit um bæði kosti og galla ESB-aðildar fyrir íslenskan
landbúnað og þá atvinnustarfsemi sem byggir á honum."
Sigmundur segir að í gegnum tíðina hafi ófáum dálksentímetrum og ófáum mínútum í ljósvakamiðlum
verið varið í að agnúast út í ríkisstyrki til íslensks landbúnaðar.
„Ég fæ hins vegar ekki annað séð en að bankahrunið núna í haust, sem er að öllu leyti af manna völdum, hafi
kostað okkur skattgreiðendur jafn mikið og ríkisstyrkir til landbúnaðar í meira en eina öld. Ég held að ástæða sé til
þess að hafa þessa staðreynd í huga," segir Sigmundur E. Ófeigsson í viðtalinu á vefnum nordlenska.is