Fyrri leikirnir í átta liða úrslitum 3. deildar karla í knattspyrnu fóru fram um helgina. Dalvík/Reynir er í góðum málum eftir 2:1 útisigur gegn Álftanesi, en Ragnar Hauksson skoraði bæði mörk Dalvíkur/Reynis í leiknum en Sveinn Guðmundsson skoraði mark Álftnesinga.
Magni frá Grenivík og Tindastóll gerðu 2:2 jafntefli á Grenivíkurvelli og því standa Tindastólsmenn betur að vígi fyrir seinni leikinn, sem fram fer á Sauðárkróki. Mörk Magna í leiknum skoraði þeir Ibra Jagne og Jón Geir Friðbjörnsson en fyrir Tindastól skoruðu þeir Björn Anton Guðmundsson og Kristinn Aron Hjartarson.
Önnur úrslit urðu þau að KB vann Berseka 2:0 á heimavelli og Árborg sigraði KFS 2:0 á útivelli.
Seinni leikirnir fara fram annað kvöld.