Dag- og göngudeildir geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri sameinaðar

Ákveðið hefur verið að sameina rekstur dag- og göngudeildar geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri og er stefnt að því að sameinuð starfsemi byrji 1. október n.k.  Núverandi starfsemi dagdeildar geðdeildar verður hætt 31. janúar n.k. Þá hefur öllum samningum vegna ferliverka (þjónusta lækna við sjúklinga án innlagnar) auk ýmissa þjónustusamninga verður sagt upp til endurskoðunar.  

Fjárhagsrammi Sjúkrahússins á Akureyri á árinu 2009 verður þrengri en á yfirstandandi ári sem nemur 250-300 milljónum króna, segir í fréttatilkynningu.  Ýmsar breytingar verða í starfsmannahaldi sjúkrahússins, ýmist með því að ekki er ráðið í störf sem losna, stöðuhlutföll breytast eða með fækkun starfa.  Þessar breytingar munu tengjast rúmlega 40 starfsmönnum í liðlega 20 stöðugildum en heildar starfsmannafjöldi sjúkrahússins er um 650 manns í um 450 stöðugildum. Auk framangreindra atriða hefur áður verið tekin ákvörðun um að hætta rekstri hjúkrunardeildar í Seli og flytja þá sjúklinga á endurhæfingardeild og öldrunarlækningadeild í Kristnesi. Stefnt er að því að gerð starfsemis- og rekstraráætlunar fyrir sjúkrahúsið í heild verði að fullu lokið um miðjan janúar n.k.  Þar er haft að leiðarljósi að tryggja áfram góða og fjölbreytta þjónustu.

Nýjast