Bygging fjölbýlishúsa við Undirhlíð á Akureyri í biðstöðu

"Við setjum þetta verkefni í biðstöðu á meðan óvissan ríkir," segir Sigurður Sigurðarson framkvæmdastjóri SS-Byggis en félagið fékk á dögunum úthlutað reit við Undirhlíð, gegnt Bónus til að byggja á fjölbýlishús.  Ætlunin er að reisa þar tvö hús, með alls 57 íbúðum.  

Sigurður segir að vissulega sé ánægjulegt að hafa fengið umræddan reit, "en það hefur bara tekið alltof langan tíma að afgreiða málið eða þrjú ár og það er ekki viðunandi að mínu mati," segir hann.  Betra er að afgreiða málin fyrr, segja mönnum af eða á hvort viðkomandi reitir fáist til bygginga eða ekki.  "Ef menn fá nei er hægur vandi að snúa sér að einhverju öðru."

Ástand efnahagsmála í landinu er nú með þeim hætti að Sigurður segir farsælast að setja málið í biðstöðu, en menn verði tilbúnir að hefjast handa við byggingu húsanna um leið og rofi til.  Nú sé unnið að teikningum og öðrum málum tengdum fyrirhugaðri byggingu.  "Það verða allir hlutir klárir þegar ástandið skánar, hvenær sem það verður, en á meðan þessi óvissa er ríkjandi rótum við okkur ekki," segir hann.

Sigurður segir að enn sé mikill áhugi fyrir íbúðum á Undirhlíðarreitnum og hann finni á þessum óvissutímum í peningamálum að fólk er tilbúið að festa fé sitt í steinsteypu.

Nýjast