Bryndís Rún Hansen var útnefnd sundmaður Akureyrar 2010 á uppskeruhátíð Sundfélagsins Óðins sem haldin var í Brekkuskóla í gærkvöld.
Bryndís á glæsilegt ár í sundinu að baki. Hún vann þrjá Íslandsmeistaratitla og þá er hún tvöfaldur Íslandsmethafi og fjórfaldur stúlknamethafi. Þá vann Bryndís sér inn keppnisrétt fyrr á árinu á fyrstu Ólympíuleika ungmenna sem fram fóru í Singapore í ágúst 2010.
Einnig hlutu viðurkenningar á uppskeruhátíðinni þau Lilja Rún Halldórsdóttir og Vilhelm Hafþórsson fyrir stigahæsta sund fatlaðra, Kristján Logi Einarsson fyrir framfarir og Breki Arnarsson fyrir ástundun. Í afrekshópi fengu viðurkenningu þau Elísa Ýrr Erlendsdóttir og Birkir Leó Brynjarsson fyrir mestu bætingu. Stigahæsta sundfólkið var svo Freysteinn Viðar Viðarsson í karlaflokki og Bryndís Rún í kvennaflokki.