Bryndís Rún Hansen, sundkona hjá Óðni, æfir nú af kappi þessa dagana fyrir Ólympíuleika Ungmenna sem fara fram í Singapure, dagana 14-26. ágúst nk. Bryndís er nýlega komin úr þriggja vikna æfingaferð til Alaborgar með úrvalsliði Bergen og æfir fram að leikunum bæði á Akureyri og í Reykjavík.
Bryndís tryggði sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum þegar hún setti Íslandsmet í 50 m flugsundi í mars sl. Í fyrstu leit út fyrir að Ísland gæti einungis sent tvo sundmenn til keppni, 1 strák og 1 stelpu vegna reiknireglu leikanna, en þar sem erfiðlega gekk að ná lágmörkum í öðrum íþóttagreinum hefur fjölgað í sundhópnum undanfarnar vikur og eru það sex sundmenn, auk einnar stúlku sem keppir í skylmingum sem fara út fyrir Íslands hönd.
Fyrir utan keppni á leikunum er hlutverk leikanna að kynna fyrir ungum íþróttamönnum sem flest, er við kemur svo stórum viðburði sem Ólympíuleikarnir eru.