Í bókun Landssambands íslenskra útvegsmanna, LÍÚ, sem lögð var fram í starfshópnum er bent á að réttur sjávarútvegsfyrirtækja til aflaheimilda sinna er varinn af ákvæðum 72. greinar stjórnarskrárinnar, hvort sem um beinan eignarrétt eða atvinnurétt er að ræða. Einnig er þar áréttað að breytingar á lögum eða stjórnarskrá verði ekki gerðar nema að gættum þessum rétti, hvort sem hann er tilkominn með veiðireynslu innan eða utan lögsögu eða kaupum á aflahlutdeild.
Í bókun LÍÚ segir m.a. um samningaleiðina: „Þrátt fyrir að samningaleið kunni í einhverjum tilvikum að skerða núverandi rétt sjávarútvegsfyrirtækja leggjum við til að sú leið verði farin þar sem breið samstaða náðist um hana í starfshópnum. Forsendan er sú að með því verði sköpuð víðtæk sátt um fiskveiðistjórnina. Það er einnig forsenda af okkar hálfu, þar sem starfshópurinn gerir ekki tillögu um einstök efnisatriði samningaleiðarinnar, að ásættanleg niðurstaða náist í framhaldi af starfi starfshópsins um samningstíma, skýrleika á framlengingu samningstíma, hversu stórum hluta aflaheimila verður ráðstafað framhjá aflahlutdeild og önnur atriði sem skipta máli. Með vísan til framangreinds mun Landssamband íslenskra útvegsmanna áfram vinna með stjórnvöldum að útfærslu á samningaleiðinni."
Í bókuninni segir um aflamarkskerfið: „Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur þá skýru afstöðu að byggja skuli fiskveiðistjórn á fyrirkomulagi framseljanlegra aflaheimilda (aflahlutdeild og aflamark) þar sem rétthafar aflaheimildanna hafa vel skilgreindan, varanlegan og tryggan rétt. Með því er best tryggt að rekinn sé sjálfbær og arðbær sjávarútvegur sem skilar þeim sem sem byggja á honum með með beinum og óbeinum hætti og samfélaginu öllu mestum arði. Það er ekki einungis að öruggt lagaumhverfi tryggi rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna heldur skiptir það sköpum að þeir sem nýta fiskistofnana hafi að leiðarljósi langtímamarkmið um uppbyggingu og viðgang þeirra. Þá er nauðsynlegt að jafnræði sé haft í heiðri innan atvinnugreinarinnar. Mikilvægt er að missa ekki sjónar á þessum grundvallaratriðum við umfjöllun um fiskveiðistjórnun. Íslendingar hafa ekki einir séð mikilvægi þessara sjónarmiða heldur eru þau viðurkennd um allan heim."