Börnum atvinnuleitenda líður verr en öðrum börnum

Staða barnafjölskyldna var rædd á síðasta fundi Almannaheillanefndar en rannsóknir hafa sýnt að börnum atvinnuleitenda líður verr en öðrum börnum og það sama á við um börn innflytjenda. Ekki hefur verið mikil aukning á vanskilum vegna skólamáltíða og leikskólagjalda og slík vanskil eru ekki send til innheimtufyrirtækja.  

Gerður Jónsdóttir verkefnisstýra Fjölskylduhjálpar Íslands á Akureyri var gestur fundar Almannaheillanefndar en Fjölskylduhjálpin tók til starfa á Akureyri í nóvember og hefur úthlutað mat. Rætt var um aðgengi að hjálparmiðstöðinni og strætisvagnasamgöngur. Fram kom að leigubílstjórar hafa verið hjálplegir við að koma fólki til og frá staðnum sem og sjálfboðaliðar. Umræður urðu um það form sem verið hefur á matarúthlutunum hér á landi og möguleika á öðru fyrirkomulagi s.s. að notast við inneignarkort í meira mæli. Þá kom einnig fram að mikilvægt sé að skoða samstarf og upplýsingagjöf milli þeirra aðila sem veita aðstoð af þessu tagi á Akureyri með það fyrir augum að ná betri yfirsýn yfir þann vanda sem við er að etja og til að bæta þjónustu við fólk í vanda.

Að frumkvæði bæjarstjóra urðu umræður á fundinum um tilgang og hlutverk Almannaheillanefndar og þeirri spurningu velt upp hvort ástæða væri til að færa henni víðtækara hlutverk og umboð til aðgerða. Upphaflega hugmyndin með stofnun Almannaheillanefndar var að hafa hana óformlega nefnd skipaða fólki sem kemur að samfélagslegri þjónustu við bæjarbúa. Aðalmarkmiðið var upplýsingaöflun og tengsl. Niðurstaða umræðnanna var að halda hlutverki nefndarinnar óbreyttu. Bæjarráð er hvatt til að vísa spurningum og verkefnum til nefndarinnar og jafnframt er bæjarfulltrúum boðið að sitja fundi nefndarinnar þegar þeir óska til að fá betri innsýn í störf hennar.

Sýnileiki nefndarinnar út á við var ræddur sem og aðgengi að fundargerðum. Fundarfólk var hvatt til að setja vísun á vefsíður sinna stofnana í fundargerðir nefndarinnar sem birtar eru á síðu Akureyrarbæjar. Þá var ákveðið að fundargerðir verði hér eftir sendar fjölmiðlum.

Nýjast