Bók um leiðangur íslensks björgunarveitarfólks til Haiti

Þann 12. janúar síðastliðinn flaug á fjórða tug íslensks björgunarveitarfólks til Haiti. Það sem við þeim blasti er erfitt að gera sér í hugarlund en þrátt fyrir erfiðustu aðstæður sem hægt var að hugsa sér ávann íslenska alþjóðabjörgunarsveitin sér mikla virðingu, bæði fyrir björgunarstörf á vettvangi og leiðtogastörf í fjölþjóðlegum tjaldbúðum björgunarmanna.

Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin hefur nú gefið út bókina Hamfarir á Haiti þar sem segir frá þessum björgunarleiðangri í máli og myndum.  Á um 120 blaðsíðum er undirbúningur sveitarinnar, aðdragandi að útkallinu og útkallið sjálft rakið á ljóslifandi hátt. Í tilefni útgáfunnar var Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin með kynningu á bókinni og sveitinni í Smáralind í gær og ræddi þar við gesti og gangndi um störf sveitarinnar. Meðlimir Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar munu svo standa vaktina í Smáralindinni alla helgina og m.a. sýna hluta af búnaði sínum; tjöld, rústabjörgunarbúnað, fjarskiptabúnað og nýjustu viðbót sveitarinnar,leitarhunda, fyrir framan verslunina Útilíf á efri hæð Smáralindar.

Allur ágóði af sölu bókarinnar rennur óskiptur til uppbyggingar á Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni en öflug rústabjörgunarsveit nýtist ekki bara erlendis heldur einnig hér heima þar sem rústabjörgunar er þörf, t.d.þegar snjóflóð falla á byggð eða jarðskjálftar verða.
Bókin er gefin út af Slysavarnafélaginu Landsbjörg og er höfundur hennar Kristín Elva Guðnadóttir.

Nýjast