Bjarki Viðar í sinni síðustu ferð sem atvinnuflugmaður

Það var stór stund í lífi Bjarka Viðars Hjaltasonar flugstjóra hjá Flugfélagi Íslands í morgun. Bjarki lenti Dash 8 106 flugvél Flugfélagsins á Akureyrarflugvelli um kl. 9.30 og þar með lauk hans starfi sem atvinnuflugmanns en fagnar 65 ára afmæli sínu á morgun föstudag.  

Bjarki, sem er Eyfirðingur og búsettur á Akureyri, hefur verið flugmaður frá árinu 1972 og starfað hjá flugfélaginu Vængjum, Flugfélagi Norðurlands og Flugfélagi Íslands. Hann var mest í innanlandsfluginu en eitthvað flaug hann einnig á Grænland. Bjarki sagði við komuna í morgun að þetta hafi verið góður tími en allt of stuttur. Allt hafi þó gengið stóráfallalaust í gegnum tíðina. Hann sagði ekkert sérstakt framundan hjá hér sér annað en að taka því rólega. Varðandi flugið sagðist hann trúlega eiga eitthvað eftir að fljúga áfram en þá aðeins einkaflug.

Nýjast