Stjórn BLÍ hefur valið Birnu Baldursdóttur úr KA sem blakkonu ársins 2010 og Emil Gunnarsson úr Stjörnunni blakmann ársins.
Birna er lykilleikmaður í liði KA, sem lék til úrslita í Bridgestonebikarnum 2010 og lék Birna stórt hlutverk í þeim leik. Að auki var hún einn af máttarstólpunum í kvennalandsliði Íslands sem lék í undankeppni Evrópumóts Smáþjóða. Birna á að baki 37 landsleiki í blaki fyrir Ísland.
Birna tók þátt í öllum stigamótum sumarsins í strandblaki og varð hún stigameistari. Auk þess varð hún Íslandsmeistari í strandblaki ásamt félaga sínum, Fríðu Sigurðardóttur.
Þá segir einnig á heimasíðu BLÍ að Birna sé fyrirmynd margra íþróttamanna og hefur tileinkað íþróttum allan sinn frítíma. Hún hefur jafnframt hjálpað mikið til við uppbyggingu meistaraflokksliðs KA undanfarin ár.