Bæjarstjórn skori á ríkisstjórnina að fresta afgreiðslu matvælafrumvarpsins

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar á morgun munu bæjarfulltrúar VG leggja fram tillögu, þar sem lagt er til að bæjarstjórn skori á ríkisstjórn Íslands að fresta afgreiðslu matvælafrumvarpsins svokallaða. Nú þegar hafa sveitastjórn Skagafjarðar, Blönduósbær, stjórn Eyþings, byggðaráð Húnaþings vestra og byggðaráð Norðurþings ályktað gegn málinu. Því er mikilvægt að bæjarstjórn Akureyri geri slíkt hið sama til að þrýsta á um að málinu verði frestað, segir í fréttatilkynningu frá VG.

Tillaga þeirra Kristínar Sigfúsdóttur og Baldvins H. Sigurðssonar bæjarfulltrúa VG er svohljóðandi. "Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar skorar á ríkisstjórn Íslands að fresta afgreiðslu frumvarps laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I.kafla I. viðauka við EES samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins. Á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu er eitt öflugusta landbúnaðar- og matvælasvæði landsins. Frumvarp ríkisstjórnarinnar felur í sér róttækar breytingar á rekstrarumhverfi íslensk landbúnaðar og matvælaframleiðslu en með því er opnað fyrir óheftan innflutning á hráu kjöti og ýmsu hrámeti til landsins. Það er því algjört lágmark að fresta málinu um sinn til að gefa hagsmunaaðilum í greininni og ríkisstjórninni meiri tími til að gera ráðstafanir svo að hægt sé að standa vörð um íslenska matvælaframleiðslu og landbúnað."

Greinargerð:

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um að opna fyrir óheftan innflutning á hráu kjöti og ýmsu hrámeti til landsins. Reikna má með að það hafi gríðarleg áhrif á atvinnu fólks hérlendis, matvælaöryggi og gæði matar, auk þess sem ýmsir fagaðilar óttast að sýkingum muni fjölga. Frá upphafi EES-samningsins hafa Íslendingar haft undanþágu frá ESB-reglum um slíkan innflutning en bæði núverandi ríkisstjórn og sú sem á undan kom hafa verið í viðræðum við ESB um að afnema undanþáguna. Enn hefur ekki verið sýnt fram á að okkur sé skylt að innleiða þessar reglur ESB.

Tillögur Vinstri grænna

Vinstrihreyfingin - grænt framboð tekur undir með Bændasamtökunum og fleiri aðilum sem krefjast þess að afgreiðslu frumvarpsins verði frestað. Frestun gefur stjórnvöldum svigrúm til að skoða málið betur í samvinnu við hagsmunaaðila og sérfræðinga. Nauðsynlegt er að meta afleiðingar aukins innflutnings fyrir íslenskan kjötiðnað og matvælaöryggi þjóðarinnar og láta á það reyna hvort ekki sé hægt að halda núverandi fyrirkomulagi. Ef slíkt reynist óframkvæmanlegt gefst í það minnsta meiri tími til undirbúnings fyrir matvælaiðnaðinn.

Störf í matvælaiðnaði

Í Vikudegi þann 10. apríl segja stjórnendur tveggja stærstu matvælafyrirtækja Akureyrar þeir Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, og Gunnlaugur Eiðsson, aðstoðarframkvæmdarstjóri Kjarnafæðis, að ef frumvarpið verður samþykkt stefni það fjölda starfa í matvælaiðnaði í hættu. Það að stjórnendur einna stærstu fyrirtækja Akureyrar skuli lýsa yfir slíkum áhyggjum er virkilegt áhyggjuefni fyrir bæjarstjórn Akureyrar.

Neytendavernd og sanngjarna viðskiptahætti

Í viðtali á forsíðu blaðsins 24stunda þann 15. maí segir Ingvi Stefánsson, varformaður stjórnar Norðlenska: „Við höfum miklar áhyggjur af því að smásalar muni í krafti stærðar sinnar setja innflutta kjötvöru, sem þeir væntanlega munu flytja inn sjálfir og er án skilaréttar, á besta stað í hillur búðanna sinna á kostnað okkar framleiðslu því að þeir vita að þeir geta skilað okkur aftur því sem ekki selst af okkar framleiðslu í þeirra hillum," Tvær stórar verslunarkeðjur eru með um 80% markaðshlutdeild í smásöluverslun. Hætt er við að þær nái enn meira valdi yfir íslenskum búvöruframleiðendum verði þessar breytingar að veruleika um leið og neytendur búa við þessa miklu fákeppni. Hætt er við að innlendu vörunni verði ýtt aftast í hillurnar vegna þess að henni geti þær skilað aftur til búvöruframleiðenda en ekki innflutta kjötinu.

Matvælaöryggi

Íslendingar eru í fararbroddi og til fyrirmyndar í Evrópu á sviði matvælaöryggis. Hér hefur tekist að halda salmonellu- og kamfýlóbaktersmitum í lágmarki og mun lægri en í löndum ESB. Þessum árangri höfum við náð með þrotlausri vinnu og fjárfestingum undanfarin ár og byggt er á eftirlitskerfum og heilbrigðisstöðlum sem eru með því allra besta sem þekkist í heiminum. Í viðtali við Bændablaðið þann 14. maí segir Friðrik Karlsson veitingamaður á Akureyri „Það er mjög fróðlegt í þessu samhengi að bera saman matarsýkingar hér á landi, á Norðurlöndum og t.d. í Bretlandi. Hér er afar lítið um matarsýkingar, á hverju ári sýkjast um 1% Íslendinga af þeirra völdum og flestir þeirra sýkjast í útlöndum. Í Svíþjóð eru matarsýkingar um 10 til 13%, en samt þykir ástandið þar í landi bara ágætt. Svo er hægt að horfa til Bretlands, þar fá um 30% landsmanna matarsýkingu á hverju ári. Þetta hlýtur að segja okkur eitthvað, það hlýtur að klingja viðvörunarbjöllum og ég held að við verðum að bregðast við. Í kjölfar óhefts innflutnings á hráu kjöti er viðbúið að matarsýkingar hér á landi muni aukast til muna,".

Frestun er lykilatriði

Bæjarstjórn Akureyrar á möguleika á að standa með þeim aðilum sem lýst hafa áhyggjum yfir frumvarpi ríkisstjórnarinnar með því að fara fram á við stjórnina að hún fresti afgreiðslu frumvarpsins. Það væri algjört ábyrgðarleysi af hálfu bæjarfulltrúa ef þeir leggjast ekki á árar með einni sterkustu atvinnugrein bæjarins.

Nýjast