Bæjarráð harmar niðurskurð á opinberum framlögum til HA

Bæjarráð Akureyrar, samþykkti bókun á fundi sínum í morgun, þar sem ráðið harmar niðurskurð á opinberum framlögum til Háskólans á Akureyri árið 2010 og lýsir yfir þungum áhyggjum af væntanlegum viðbótarniðurskurði árið 2011. Akureyri sé og hafi í gegnum tíðina verið skólabær og HA hafi síðustu 20 árin leitt uppbyggingu háskólastarfs á landsbyggðinni.  

Ennfremur segir í bókuninni að mjög nauðsynlegt sú að háskólar fái að starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Beinir bæjarráð því til ríkisstjórnar og ráðherra menntamála að standa vörð um rekstur og uppbyggingu háskólastarfs á Akureyri.

Samkvæmt heimildum Vikudags hefur Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar og oddviti L-listans, þegar sett á stofn vinnuhóp, sem ætlað er að efla tengsl HA og bæjarstjórnar. Geir fundaði með Stefáni B. Sigurðssyni rektor HA í vikunni, sem einnig hyggst setja vinnuhóp í gang. Þessir tveir vinnuhópar munu svo vinna sameiginlega að því að tryggja hag skólans.

Nýjast