Atvinnuleysisskráningum fjölgar hratt á Akureyri

Akureyrarbær og Vinnumálastofnun hafa átt í samstarfi um sérhæfða fjármálaráðgjöf til einstaklinga og fjölskyldna í vanda. Því verkefni lýkur nú um áramót. Ekki hefur tekist að fá ráðgjafa á vegum Umboðsmanns skuldara staðsettan á Akureyri. Bæjaryfirvöld hafa unnið í því máli enda mikilvægt að það séu ekki eingöngu íbúar á höfðuborgarsvæðinu sem njóti slíkrar þjónustu.  

Þetta kemur fram í fundargerð Almannaheillanefndar sem haldin var nýlega. Þar kemur einnig fram að Umboðsmanni skuldara verður boðið á næsta fund Almannaheillanefndar. Soffía Gísladóttir fór yfir nýjustu tölur frá Vinnumálastofnun á fundinum. Nú eru alls 669 manns á skrá á Akureyri, þar af 181 í hlutastarfi. Alls eru 262 á aldrinum 16-29 ára á skrá, 132 á aldrinum 30-39 ára, 215 á aldrinum 40-59 ára og 60 manns á aldrinum 60-70 ára. Skráningum fjölgar nú hratt enda erfiðasti tími ársins hvað atvinnumál varðar að fara í hönd. Atvinnuleysi á Akureyri er nú 0,5% lægra en á sama tíma í fyrra og mælist 7,1%. Vinnumálastofnun kemur að starfsemi sérstakst þjálfunarvinnustaðar með Starfsendurhæfingu Norðurlands. Tilgangur vinnustaðarins er að þjálfa fólk aftur til starfa eftir langtíma atvinnuleysi. Átakið Ungt fólk til athafna heldur áfram enda hefur það gefið góða raun.

Rætt var um áhrif niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu hjá nágrannasjúkrahúsunum á starfsemi FSA á fundi almannaheillanefndar. Fram kom að samráðsnefnd forstjóra heilbrigðisstofnana á svæðinu hefur unnið sameiginlegt mat á áhrifum. Umræður urðu um hvort þær aðstæður séu að skapast að nauðsynlegt verði að reka sjúkrahótel á Akureyri. Rauði krossinn á eina íbúð sem ætluð er sjúklingum eða aðstandendum. Þá hafa sjúklingar og aðstandendur einnig nýtt sér orlofsíbúðir stéttarfélaganna.

Umræður urðu um það form sem verið hefur á matarúthlutunum hér á landi og möguleika á öðru fyrirkomulagi s.s. að notast við inneignarkort í meira mæli. Þá kom einnig fram að mikilvægt sé að skoða samstarf og upplýsingagjöf milli þeirra aðila sem veita aðstoð af þessu tagi á Akureyri með það fyrir augum að ná betri yfirsýn yfir þann vanda sem við er að etja og til að bæta þjónustu við fólk í vanda.

Nýjast