Atvinnuleysi mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára

Á öðrum ársfjórðungi 2010 voru að meðaltali 16.200 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 8,7% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 9,4% hjá körlum og 8% hjá konum. Frá öðrum ársfjórðungi 2009 til annars ársfjórðungs 2010 fækkaði atvinnulausum um 500 manns. Þegar litið er til aldurs var atvinnuleysi mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða 21,3%.  

Atvinnuleysi er alltaf mest á meðal þess aldurshóps en er sérstaklega áberandi í öðrum ársfjórðungi. Þetta háa hlutfall í öðrum ársfjórðungi skýrist að mestu af aukinni atvinnuþátttöku námsmanna yfir sumarmánuðina. Á fyrsta ársfjórðungi 2010 var atvinnuleysi 9,8% á höfuðborgarsvæðinu en 6,8% utan þess, samkvæmt tölum frá Hagstofunni.

Af þeim sem voru atvinnulausir á öðrum ársfjórðungi 2010 höfðu 2.800 fengið vinnu sem hefst síðar, eða 17,4%. Til samanburðar höfðu 1.500 manns fengið vinnu, eða 9,3%, á öðrum ársfjórðungi 2009. Á öðrum ársfjórðungi 2010 höfðu um 2.700 manns verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur, eða 16,9% atvinnulausra, en voru á sama tímabili 2009 um 400 manns, eða 2,5%.

Atvinnulausir teljast þeir sem voru án atvinnu í viðmiðunarviku könnunarinnar, þ.e. höfðu hvorki atvinnu né voru í vinnu (í eina klukkustund eða lengur) sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, eru að leita að vinnu og geta hafið störf innan tveggja vikna eða hafa fengið starf sem hefst innan þriggja mánaða. Einstaklingar sem eru ekki í vinnu en eru í námi flokkast atvinnulausir ef þeir uppfylla skilyrðin hér að ofan.

Nýjast