Hákon segist vonast til að úr rætist á komandi vikum og félagsmenn verði allir komnir í vinnu áður en langt um líður og ástandið því vonandi bara tímabundið. Hann bætir við að raunar vanti málmiðnaðarmenn á vissum sviðum á svæðinu. "Það er nú svo að stundum þegar illa árar í landi gengur vel hjá okkar fólki, það er ýmislegt í ytri umgjörðinni sem styður við okkur í því umhverfi sem við búum við," segir Hákon og nefnir m.a. hátt gengi sem komi sjávarútvegi til góða og geri að verkum að þá hugi fleiri en ella að viðgerðum.
Óvenju mikið er um verkefni hjá Slippnum um þessar mundir og segir Hákon það afar ánægjulegt, raunar vanti þar starfsmenn og hafa verið kallaðir til erlendir starfsmenn til að unnt verði að halda verkefnum hjá fyrirtækinu. Félagar í Félagi málmiðnaðarmanna eru um 330 talsins, það er svipaður fjöldi og verið hefur en að auki eru iðnnemar um tuttugu. Rekstrarafkoma félagsins var mjög góð á liðnu ári.
Stjórn félagsins var öll endurkjörin en hana skipa þeir Hákon Hákonarson formaður, Brynjólfur Jónsson, varaformaður, Finnbogi Jónsson ritari, Eyþór Jónsson gjaldkeri, og Arnar Þór Óskarsson, Arnþór Örlygsson og Magnús Ottósson meðstjórnendur.