Samkomulagið miðar að stórauknu samstarfi norðlensku lögregluliðanna fjögurra. Komið verður á laggirnar sérstöku teymi þriggja lögreglumanna við rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri ásamt lögreglumanni með fíkniefnahund. Verða tveir lögreglumannanna í teyminu frá sérsveit ríkislögreglustjóra. Starfsstöð fíkniefnateymisins er í lögreglustöðinni á Akureyri en umboð þess nær til allra lögregluumdæmanna fjögurra á Norðurlandi. Með samstarfinu er stefnt að því að efla styrk og samtakamátt lögregluliðanna fjögurra og herða þannig baráttuna gegn innflutningi, dreifingu og neyslu fíkniefna.
Björn Jósef Arnviðarsson, lögreglustjóri á Akureyri, segir með sameiningu þessarra fjögurra lögregluliða fái menn aukin slagkraft úr svipuðum mannafla. "Þegar menn leggja saman krafta sína með formlegum hætti og vinna í raun og veru í einu teymi þá eru meiri líkur á því að við náum árangri," segir Björn.