Kæru Norðlendingar! Látum ekki hræða okkur frá því að greiða atkvæði í komandi Stjórn-lagakosningum. Jafnvel ekki þó einhver álitsgjafi af tegundinni stjórnmálafræðingur, stígi fram og virðist hafa lítið álit á okkur sem fullfærum hugsandi kjósendum.
Það eina í ferli undirbúningsins fyrir þessar kosningar, sem hvergi hefur verið gert áður, er Þjóðfundurinn og hann tókst með ágætum. Kosningin er ekki flókin, en það tekur einhvern tíma að velja sér þá 25, sem maður helst vill kjósa úr stórum hópi frambjóðenda, en það getur maður gert heima hjá sér. Svo getur maður líka heima hjá sér raðað þeim upp á minnisblað, þannig að efst er settur sá sem maður vill helst að komist inn. Síðan sá sem maður vill næst helst að komist inn, og svo koll af kolli þar til komin eru 25 númer í röð.
Og ef maður nennir ekki að raða svona mörgum upp, þá er það bara í besta lagi. Það má alveg láta duga að velja bara nokkra og raða þeim, og það er líka í lagi að velja aðeins eitt númer eða tvö. Hafa svo minnislistann með sér inn í kjörklefann og fara eftir honum.
Flókið eða hvað? Nokkrar klukkustundir til að velta vöngum, velja og raða, og nokkrar mínútur í kjörklefa, Það er ekki hátt gjald fyrir lýðræðið.
Til gamans má geta þess að í sveitarstjórnarkosningum nokkurra sveitarstjórna í Þýskalandi er viðhaft persónukjör. Sumar sveitarstjórnir þar eru skipaðar 40 fulltrúum og þar bjóða fram jafnvel 6-7 flokkar. Þar hefur hver kjósandi í raun 40 atkvæði sem hann má dreifa að vild milli lista.
Hann skrifar númer, frá 1 -40 framan við nöfn frambjóðenda, og hann getur gert jafnvel enn betur, ef hann endilega vill tryggja sinn uppáhalds mann. Kjósandinn má gefa einum frambjóðanda þrefalt vægi með því að setja til dæmis bæði númer 1 - 2 og 3 framan við hans nafn.
Nú en ef hann hefur ekki áhuga eða vill að flokkurinn ráði því hverjir eru efstir þá getur hann bara sett kross við flokksnafnið. Þjóðverjar óttuðust í fyrstu um að mikið yrði um mistök, en sá ótti reyndist ástæðulaus og meirihluti kjósenda nýtir sér valfrelsið að fullu.
Kæru kjósendur!! Það sem þjóðverjar geta,,,,það getum við líka.
Höfundur er frambjóðandi til stjórnlagaþings nr. 2578.