Akureyri Handboltafélag (AH) hefur fengið mikinn liðsstyrk fyrir komandi átök í N1-deildinni í handbolta í vetur því stórskyttan Árni Þór Sigtryggsson samdi við félagið í gærkvöldi til eins árs.
Þetta staðfesti þjálfari AH og bróðir Árna, Rúnar Sigtryggson við Vikudag nú rétt í þessu. Rúnar segir að þar sem Árni hafi nú gengið til liðs við félagið verði auðveldara að ganga frá samningum við aðra leikmenn liðsins sem eftir áttu að semja. Því hefur heldur betur birt yfir hjá liðinu við þessi tíðindi.
Atli Þór Ragnarsson, formaður AH, sagði þetta vera gleðitíðindi og staðfesti að gengið yrði frá öllum leikmannamálum félagsins fyrir vikulokin. Utan við að í athugun sé nú að fá erlenda skyttu til liðs við liðið, það verði þó ekki gert nema að öruggt sé að viðkomandi leikmaður styrki liðið mikið.