Grótta hefur 17 stig í þriðja neðsta sæti deildarinnar. Þórsarar voru ekki lengi að setja fyrsta markið á Þórsvelli í kvöld og það gerði Ármann Pétur eftir tæplega ellefu mínútna leik. Ármann, sem var fyrirliði Þórs í leiknum í fjarveru Þorsteins Ingasonar, fékk boltann inn í teig gestanna og lagði boltann fyrir sig og skoraði með fínu skoti. Gróttumenn fengu afar fá marktækifæri í fyrri hálfleik og heimamenn voru mun líklegri til þess að bæta við marki. Nenad Zivanovic fékk dauðafæri fyrir Þór undir lok fyrri hálfleiks en skaut boltanum yfir markið úr stuttu færi og staðan 1:0 í hálfleik.
Líkt og í fyrri hálfleik voru Þórsarar mun líklegri fyrir framan markið heldur en Gróttumenn og var Jóhann Helgi Hannesson nálægt því að bæta við marki fyrir heimamenn á 60. mínútu en lét verja frá sér af stuttu færi inn í teig. Þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum kom ótrúlegur leikkafli hjá heimamönnum í Þór þar sem þeir skoruðu þrjú mörk á fjögurra mínútna kafla.
Ármann Pétur Ævarsson byrjaði sýninguna er hann skoraði öðru sinni með ágætu skoti á vítateigslínunni, sem Kjartan Ólafsson markvörður Gróttu varði inn í markið. Staðan 2:0. Aðeins mínútu síðar átti Sigurður Marinó Kristjánsson fínan sprett upp hægri kantinn, lék á varnarmenn Gróttu og lagði boltann fyrir markið þar sem Jóhann Helgi Hannesson var mættur og skoraði auðveldlega. Hlutirnir gerðust hratt á þessu tímapunkti því andartaki síðar fékk Þór dæmda vítaspyrnu er boltinn fór í hönd eins leikmanns Gróttu. Ármann Pétur Ævarsson fór að þessu sinni á vítapunktinn og freistaði þess að ná þrennunni, sem og hann gerði með fínu skoti. Staðan því skyndilega orðinn 4:0 fyrir Þór.
Það var svo varamaðurinn Kristján Steinn Magnússin sem skoraði fimmta og síðasta mark Þórs í leiknum fjórum mínútum fyrir leikslok. Lokatölur á Þórsvelli, 5:0 sigur Þórs.