Árlegir styrktartónleikar í Akureyrarkirkju í kvöld

Árlegir styrktartónleikar fyrir Líknarssjóðinn Ljósberann verða haldnir í Akureyrarkirkju í kvöld, miðvikudaginn 15. desember kl. 20.30. Á tónleikunum koma fram Björg Þórhallsdóttir sópran og Kristján Jóhannsson tenór en Björg á frumkvæðið að þessum tónleikum og hefur skipulagt þá síðustu ár. Tónleikarnir ásamt fjáröflun og gjöfum tengdum þeim hafa verið kjölfestan í fjáröflun sjóðsins, ásamt gjöfum sem honum hafa borist og framlögum í ljósbera (ljósaaltari) kirkjunnar.  

Kórar kirkjunnar koma einnig fram á tónleikunum ásamt fjölda hljóðfæraleikara og organistum kirkjunnar. Allir sem að tónleikunum koma gefa vinnu sína. Miðaverð er kr. 2000 og rennur andvirði miðasölu óskert til sjóðsins. Á efnisskránni eru íslensk og erlend jólalög. Hægt er að gefa ábendingar eða koma á framfæri umsóknum um framlög úr sjóðnum til presta Akureyrarkirkju og er farið með allar umsóknir sem trúnaðarmál.

Undanfarin ár hefur Líknarsjóðurinn Ljósberinn starfað við Akureyrarkirkju. Hann var stofnaður til minningar um sr. Þórhall Höskuldsson, fyrrverandi sóknarprest við kirkjuna, sem var mjög umhugað um líknar- og velferðarmál. Prestar kirkjunnar sjá um að úthluta úr sjóðnum. Á þessu ári hefur verið veitt hátt á aðra milljón króna úr sjóðnum, til einstaklinga og fjölskyldna, en einnig til verkefna, sem falla að markmiðum sjóðsins. Sumarbúðir fyrir einstæða foreldra og börn þeirra var meðal þess sem fékk styrk úr sjóðnum. Það verkefni þótti takast einstaklega vel og verður ábyggilega framhald á því næsta sumar. Nú líður að jólum og þá kemur sér vel að þessi sjóður skuli vera starfandi þegar svo þröngt er í búi hjá mörgum. 

Sjóðurinn er í vörslu Akureyrarkirkju og hægt er að leggja fjárframlög inn á reikning sjóðsins 0302-13-701414, kt. 410169-6149.

Nýjast