Þór fær Gróttu í heimsókn í kvöld þegar 18. umferð Íslandsmótsins í 1. deild karla í knattspyrnu fer af stað og hefst leikurinn á Þórsvelli kl. 18:30. Þór er í harðri baráttu á toppnum og er í þriðja sæti deildarinnar með 31 stig, fjórum stigum frá toppliði Víkings. Grótta situr í þriðja neðsta sæti deildarinnar með 17 stig og er að berjast fyrir sæti sínu í deildinni og leikmenn liðsins munu eflaust selja sig dýrt í leiknum. Þórsarar verða einfaldlega að vinna leikinn í kvöld ef þeir ætla ekki að eiga í hættu á að missa af lestinni á toppnum og því má búast við hörkuleik á Þórsvelli.
„Við erum á heimavelli og eins og alltaf er krafa um sigur á Þórsvelli,” segir Hreinn Hringsson aðstoðarþjálfari Þórs, en nánar er rætt við hann í nýjasta tölublaði Vikudags. Þórsarar verða án þriggja lykilmanna í leiknum, en þeir Atli Jens Albertsson, Sveinn Elías Jónsson og fyrirliðinn Þorsteinn Ingason verða allir frá vegna leikbanns og ljóst að þetta er mikil blóðtaka fyrir liðið.
Þórsarar þurfa á stuðningi áhorfenda að halda sem alderi fyrr í kvöld og því er stuðningsmenn félagsins hvattir til þess að mæta á völlinn og styðja sitt lið.
Aðrir leikir í 1. deildinni í kvöld eru:
Fjarðabyggð-HK
Víkingur R.-Þróttur R.
Leiknir R.-ÍR
Njarðvík-ÍA