Hann sagði að nemendafjöldinn hefði vaxið jafnt og þétt "og nú háttar af ýmsum ástæðum svo til að við hyggjumst staldra aðeins við og skoða framtíðina með hliðsjón af námsframboði, nemendafjölda og húsnæðisþörf næstu tíu árin eða svo. Hlutfall verknáms hefur verið að aukast hægum skrefum og má segja að hvað fjölda nemenda varðar fari það brátt að standa jafnfætis bóknámsbrautunum. Staðreyndin er sú að æ fleiri nemendur nýta sér þær mörgu og fjölbreyttu leiðir sem hér eru í boði og brautskrást með feril af bæði bóknáms- og verknámsbrautum," sagði Hjalti Jón.
Hann gerði stofnun lítilla framhaldsskóla að umtalsefni í ræðu sinni. "Ekki er gott að segja hvaða áhrif væntanleg stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð mun hafa á starfsemi framhaldsskólanna hér í Akureyri sem báðir hafa verið í mikilli sókn á undanförnum árum. Ekki verður það heldur séð fyrir fyrir hvort nemendur af Dalvík munu fremur koma hingað en að fara til Ólafsfjarðar þar sem fyrirhugað er að reisa hinn nýja skóla. Þá er næsta víst að einhverjir nemendur bæði úr Dalvíkur- og Fjallabyggð munu eftir sem áður taka stefnuna á Menntaskólann á Akureyri og aðrir hingað í Verkmenntaskólann í krafti hins mikla og kraftmikla námsframboðs. Þá má geta þess að nemendur af þessu svæði, alla vega hvað VMA varðar, hafa verið í forgangshópi bæði á heimavistinni og við inntöku nýnema á haustin. Um þessar mundir er verið að endurskoða almenningssamgöngur um Eyjafjörð og ég held því fram að fjölgun ferða um svæðið myndi ekki síst þjóna framhaldsskólanemendum. Vissulega er gott að nemendur geti sótt framhaldsskóla í heimabyggð eða sem næst henni. Ég get samt ekki neitað því að þessi þróun, sem virðist vera farin af stað, veldur mér nokkrum áhyggjum og hef ákveðnar efasemdir um að hún verði til góðs þegar heildarmyndin er skoðuð," sagði Hjalti Jón.