Helga Eymundsdóttir formaður kjörstjórnar á Akureyri segir að undirbúningur kosninganna hafi gengið ljómandi vel og hún er bjartsýn á að allt gangi vel fyrir sig á morgun. Á Akureyri verður kosið í VMA, þar verða 12 kjördeildir með 10 kjörklefum eða básum í hverri kjördeild. Einnig verður kosið í Grímsey og Hrísey og á þeim stöðum verður kjörstaður opinn frá 10-18 en á Akureyri frá kl. 9-22. Á kjörskrá á Akureyri eru 13.162, þar af eru 59 á kjörskrá í Grímsey og 130 á Hrísey. Konur eru heldur fleiri eða 6.739 en karlar eru 6.423.
Helga segir að rúmlega 100 manns komi að vinnu við kosningarnar á þessum þremur stöðum á kjördag, á einn eða annan hátt. Hún segir að kjósendur séu að verða sífellt jákvæðari fyrir kosningunum en það fari þó svolítið eftir aldri fólks. Helga segir að það skipti höfuðmáli að fólk komi vel undirbúið á kjörstað. "Ef fólk gerir það, er það ekki nema 3-5 mínútur að kjósa, en ef það kemur óundirbúið og þarf að fara að leita að nöfnum, getur tekið allt að hálftíma að kjósa. Jafnframt er ástæða til að brýna fyrir fólki, að seðillinn sem það fékk heim til sín, er ekki gildur og það má ekki setja hann í atkvæðakassann. Það má hafa fylgiseðilinn meðferðis til halds og trausts en fólk verður að passa sig á því að setja hann ekki óvart í kjörkassann og taka svo kjörseðilinn með sér heim. Það mun þurfa að fylgjast vel með því," segir Helga. Hún skorar jafnframt á fólk að mæta á kjörstað og nýta þennan rétt sinn.
Stjórnlagaþinginu er ætlað að undirbúa frumvarp til breytinga á stjórnarskránni og þegar þingið hefur samþykkt frumvarp til stjórnskipunarlaga skal það sent Alþingi til meðferðar. Kjörnir verða 25 fullrúar sem fyrr segir en lög kveða svo á um að þingfulltrúum verði fjölgað um allt að sex, ef hallar verulega á annað kynið í hópnum sem valinn verður, þannig að kynjahlutfallið verði að lágmarki tveir á móti þremur.