Alfanámskeið haldin á Akureyri í haust

Alfanámskeið verða haldin í haust í samstarfi við KFUM og KFUK á Akureyri. Kynningarkvöld verður miðvikudaginn 8. sept. kl. 20. Það er byrjendanámskeiðið þar sem glímt er við spurninguna: Hver er tilgangur lífsins. Þau Dögg Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur, og Fjalar Freyr Einarsson, grunnskólakennari, leiða það.  

Þá verður samhliða boðið upp framhaldsnámskeið þar sem verður tekist á við kristna siðfræði: Tíu boðorð á 21. öld. Sr. Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur, og Bjarni Guðleifsson, líffræðingur, munu leiða þann hluta. Allir eru velkomnir á kynningarkvöldið 8. sept. kl. 20. 

Alfa-námskeiðið: Hver er tilgangur lífsins?

Alfa er lifandi og skemmtilegt 10 vikna námskeið um kristna trú. Námskeiðið hefur notið gíðarlegra vinsælda og náð útbreiðslu um heim allan. Nánast allar kristnar kirkjudeildir hafa tekið námskeiðið upp á arma sína og hafa þátttakendur á Íslandi skipt þúsundum. Hver tími hefst kl. 18 með máltíð og svo er hópnum skipt í minni hópa þar sem fyrirlestur og umræður fara fram.

Sr. Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur er umsjónarmaður, Dögg Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur og Fjalar Freyr Einarssson, grunnskólakennari sjá um fyrirlestrana og leiða umræður. Kynningarkvöld verður miðvikudaginn 8. september í sal KFUM og KFUK í Sunnuhlíð og hefst kl. 20:00. Allir velkomnir. Nánari upplýsingar í sima 462 6702 alla virka daga kl. 10-12. Námskeiðsgjald er kr. 5.000-.

Námskeiðið: Tíu boðorð á 21. öld. Um kristna siðfræði.

Í kynningu á námskeiðinu segir: Menning okkar er að breytast. Margvísleg sjónarmið eru lögð til grundvallar siðferði samtímans. Lífskoðanir eru margar og fjölbreyttar, margir sannleikar" hlið við hlið. Við þessar aðstæður er siðfræðin knýjandi og ögrandi viðfangsefni.

Tíu boðorð Guðs eru ævaforn. Þau eru rótgróin í okkar vestrænu menningu. Kristin trú tók þau í arf frá gyðingdómi. En þau eiga sér líka samsvörun í mannlegri samvisku. Eru boðorðin ófrávíkjanleg boð Guðs og leiðbeining í lífinu?

Markmið námskeiðsins Tíu boðorð á 21. öld" er að þátttakendur þjálfist í að lesa Guðs orð í bæn og íhugun. Á ærlegan hátt verður siðferðið skoðað með boðorðin gömlu að leiðarljósi, tekist á við Guð og menn í leit að hamingju, blessun og gæfu í lífinu. Fyrirlestra og umræður annast Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur og Bjarni Guðleifsson, líffræðingur. Námskeiðið verður samhliða Alfa-námskeiðinu: Hver er tilgangur lífsins? Fyrirkomulagið með sama hætti. Matur kl. 18, svo skipt í hópa, fyrirlestur og umræður. Upplýsingar eru veittar í síma 462 6702 alla virka daga kl. 10-12. Námskeiðsgjald er kr. 5.000-. Námskeiðið verður kynnt miðvikudaginn 8. september kl. 20 í sal KFUM og KFUK í Sunnuhlíð.

Nýjast