Alcoa Fjarðaál lýkur gangsetningu og fjölgar starfsmönnum

Síðasta rafgreiningarkerið var gangsett hjá Alcoa Fjarðaáli í Reyðarfirði í gær. Fyrirtækið ætlar að fjölga starfsmönnum á næstu vikum vegna aukinna verkefna.

Útflutningsverðmæti framleiðslunnar verður rúmlega 70 milljarðar króna á ári miðað við núverandi heimsmarkaðsverð á áli og gengi dollars. Um þriðjungur rúmlega 400 starfsmanna álversins eru konur, sem er hæsta hlutfall sem þekkist í álverum Alcoa í heiminum. Kerin í álverinu eru 336 og í þeim eru framleidd um 940 tonn af áli á sólarhring, en afkastageta álversins er 346.000 tonn á ári. Tómas Már Sigurðsson forstjóri sagði á fundi með starfsmönnum Fjarðaáls, þegar þessum tímamótum var fagnað, að ætlunin væri að fjölga nokkuð starfsmönnum fyrirtækisins. Hann sagði þetta gert til að mæta auknum verkefnum, meðal annars vegna fullvinnslu áls, en um 20 manns starfa við framleiðslu álvíra hjá fyrirtækinu. Einnig er markmiðið að skapa aukið svigrúm fyrir þjálfun, fræðslu og starfsþróun sem Alcoa Fjarðaál leggur mikla áherslu á. Fjarðaál er eitt fullkomnasta álver heims og fyrirmynd nýrra álvera Alcoa. Búast má við að í framtíðinni nýtist þekking og reynsla starfsfólks Fjarðaáls við gangsetningu nýrra álvera fyrirtækisins. Um 70 erlendir sérfræðingar frá Alcoa sem hafa aðstoðað við gangsetninguna hverfa nú til síns heima.

Starfsmenn Fjarðaáls eru nú 410. Um þriðjungur þeirra er konur, sem er hæsta hlutfall sem þekkist í álverum Alcoa. Um 50% starfsmanna eru frá Austurlandi og um 20% til viðbótar eru brottfluttir Austfirðingar sem hafa nýtt tækifærið og snúið aftur til starfa í heimabyggð. Annað starfsfólk kemur víðs vegar að af landinu. Starfsfólkið býr að fjölbreyttri menntun og reynslu. Um 20% starfsmanna eru með háskólagráðu, önnur 20% með iðnmenntun og 60% er með margvíslega aðra menntun og reynslu. Ríflega helmingur starfsmanna er innan við fertugt og um 5% yfir sextugu.

Nýjast