Akureyringar farnir að flokka sorp við heimili sín

Akureyringar eru byrjaðir að flokka sorp við heimili sín en fyrir nokkrum vikum var farið að dreifa tvískiptum tunnum í hverfi bæjarins. Verkefnið er komið af stað í Lunda- og Gerðahverfi, stærstum hluta Naustahverfis og það er að fara í gang í Innbænum.  

Innleiðing þessa nýja kerfis hefur ekki gengið eins vel og áætlað var og segir Jón Birgir Gunnlaugsson forstöðumaður umhverfismála á framkvæmdadeild Akureyrarbæjar að sú staða hafi verið rædd við verktakann. Jón Birgir segir að flokkunin hafi hins vegar farið ágætlega af stað. "Við heyrum ekki annað en langflestir séu bara ánægðir en auðvitað eru alltaf einhverjir óánægðir og hafa allt á hornum sér. Bæjarbúar eru að flokka vel, það sem við höfum séð en auðvitað er ekki komin mikil reynsla á þetta," segir Jón Birgir.

Aðspurður um hvort erfiðara verði með sorpflokkun í fjölbýlishúsum, segist Jón Birgir ekki hafa áhyggjur af því. "Það er verktakans að ræða við húsfélög og finna lausnir fyrir hvert og eitt fjölbýlishús." Bæjaryfirvöld hafa staðið fyrir kynningarfundum um sorpflokkunina í hverfum bæjarins og segir Jón Birgir að ágæt mæting hafi verið á þá, eða frá 70 og upp í 200 manns.

Nýjast