Akureyri sótti tvö stig í Vodafonehöllina í kvöld

Akureyri hélt sigurgöngu sinni áfram í N1-deild karla í handbolta er liðið sigraði Val á útivelli í kvöld, 23:17. Akureyri hafði tveggja marka forystu í hálfleik, 8:6. Með sigrinum eru norðanmenn áfram á toppi deildarinnar með 10 stig og hafa unnið alla fimm leikina í deildinni. Hrakfarir Valsmanna halda að sama skapi áfram en liðið er enn án stiga á botni deildarinnar og ljóst að Júlíus Jónasson og hans menn eiga erfiðan vetur fyrir höndum.

Sveinbjörn Pétursson átti góðan leik milli stanganna hjá norðanmönnum og varði 19 skot. Bjarni Fritzson skoraði sex mörk fyrir Akureyri en Oddur Gretarsson kom næstur með fimm mörk. Í liði Vals var Ernir Hrafn Arnarsson markahæstur með sex mörk og Ingvar Kristinn Guðmundsson varði 17 skot í marki heimamanna.

Nýjast