Hermann Jón Tómasson formaður bæjarráðs og formaður stjórnar Flokkunar Eyjafjarðar ehf. sendi inn erindi til bæjarráðs fyrir hönd félagsins þar sem óskað var eftir að eigendur Flokkunar ehf. samþykki hlutafjáraukningu í félaginu um 50 milljónir króna og staðfesti jafnframt þátttöku í þeirri hlutafjáraukningu sem svarar til hlutfallslegrar eignar þeirra í félaginu.
Einkahlutafélagið Flokkun Eyjafjörður ehf. var stofnað 24. maí 2007 af sömu aðilum og stóðu að byggðasamlaginu Sorpeyðing Eyjafjarðar bs., en því var slitið 1. júlí 2007. Á sama tíma tók Flokkun við öllum rekstri sem Sorpeyðing Eyjafjarðar bs. hafði með höndum ásamt öllum skyldum byggðasamlagsins. Eigendur lögðu eignarhlut sinn í Sorpeyðingu Eyjafjarðar bs. fram sem hlutafé í Flokkun og þannig eru eigendurnir þeir sömu og stóðu að byggðasamlaginu. Þetta eru öll sveitarfélögin á Eyjafjarðarsvæðinu: Akureyrarbær, Arnarneshreppur, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grýtubakkahreppur, Hörgárbyggð og Svalbarðsstrandarhreppur.