Áhersla á umferðaröryggi í Lunda- og Gerðahverfi

"Við munum leggja áherslu á umferðaröryggi í hverfinu," segir Bryndís Elfa Valdemarsdóttir sem sæti á í hverfisnefnd Lunda- og Gerðahverfis en aðalfundur nefndarinnar var haldinn á dögunum. Bryndís segir að áhersla verði á ferðaöryggi, "og við ætlum að vekja athygli íbúa hverfisins á þeim málum," segir hún.   

Meðal þess sem leggja á áherslu á er þrenging á Þingvallastræti, og er íbúum í mun að henni verði flýtt sem kostur er en oft er mikill umferðarhraði á Þingvallastræti.  Þá vilja íbúar sjá gangbrautarljós á Skógarlundi og ýmislegt fleira sem tengist auknu öryggi gangandi vegfarenda.  Bryndís nefnir einnig að íbúarnir hafi áhuga fyrir að minnka umferð bifreiða í hverfinu og ætli að benda foreldrum á að upplagt sé að spara einkabílinn og hætta að skutla börnum skamman veg í skólann.

Þá segir hún að hverfisnefndin efni jafnan til vorhátíðar á hverju vori sem vel sé sótt af íbúum en áður taki menn til höndum og taka þátt í hreinsunardegi í hverfinu.  "Við höfum lítið verið að skipta okkur af skipulagsmálum, enda hverfið fullbyggt og lítið um framkvæmdir hér á svæðinu," segir Bryndís.  Hins vegar hefur verið rætt um betra aðgengi að fulltrúum Akureyrarbæjar innan nefndarinnar en íbúar hafa lýst yfir að þeir vilji skilvirkari samskipti og að boðleiðir séu stuttar.  Vinnuhópur á vegum nefndarinnar hefur sest yfir það mál en niðurstaða liggur ekki fyrir.

Nýjast