Akureyri sækir Hauka heim í kvöld í N1-deild karla í handbolta í síðustu umferð deildarinnar fyrir hlé og hefst leikurinn á Ásvöllum kl. 18:30. Akureyri er enn á toppi deildarinnar með 18 stig þrátt fyrir tap í síðasta leik gegn Fram á heimavelli en Haukar sitja í fjórða sæti með 12 stig.
Íslandsmeistarar Hauka virðast vera að vakna upp úr værum blundi en eftir brösótta byrjun eru meistararnir búnir að vinna þrjá leiki í röð. Það mun því reyna verulega á Akureyrarliðið í kvöld og ljóst að liðið verður að spila mun betur en gegn Fram í síðasta leik, ætli það sér að ná hagstæðum úrslitum á Ásvöllum í kvöld.
„Við verðum bara að halda áfram og við erum nokkrir í þessu liði sem eru búnir að vera í þessu nokkuð lengi og við vitum alveg hvernig á að bregðast við þegar maður tapar,” segir Guðlaugur Arnarsson leikmaður Akureyrar um leikinn gegn Haukum í kvöld. „Þetta verður hörkuleikur við eitt af toppliðunum í deildinni en við ætlum að vinna og komast aftur á beinu brautina," segir Guðlaugur.
Aðrir leikir kvöldsins í N1-deildinni eru Afturelding-Selfoss, FH-HK og Valur-Fram.
Nánar í Vikudegi í dag.