Æskulýðskór Glerárkirkju heimsækir jafnaldra sína í Þingeyjarsýslum

Æskulýðskór Glerárkirkju er á leið í söngferðalag og ætlar að heimsækja jafnaldra sína á Raufarhöfn, Kópaskeri og Hafralæk með það að markmiði að kenna það nýjasta af íslenskum barnasálmum og læra af jafnöldrum sínum á hverjum stað um leið.

 

Það er Æskulýðskór Glerárkirkju ásamt samstarfsaðilum á hverjum stað fyrir sig sem stendur fyrir dagskránni BÖRN SYNGJA FYRIR BÖRN. Dagskráin er styrkt af Menningarráði Eyþings.

Dagskrá á Raufarhöfn, sumardaginn fyrsta, 24. apríl kl. 13:00 í félagsheimilinu.

Dagskrá á Kópaskeri, sumardaginn fyrsta, 24. apríl kl. 17:30 í grunnskólanum.

Dagskrá í Hafralækjarskóla, föstudaginn 25. apríl kl. 10:30.

Á hverjum stað er börnum á grunnskólaaldri boðið að vera með í tveggja tíma dagskrá þar sem lögð er áhersla á sönggleðina og öllum gert mögulegt að vera með. Unnið er með ýmis lög, meðal annars ný lög eftir Hafdísi Huld af plötu hennar „Englar í ullarsokkum" þar sem tákn með tali er notað samhliða söngnum. Æskulýðskór Glerárkirkju og þá sér í lagi stjórnandi kórsins, Ásta Magnúsdóttir, hefur safnað að sér þekkingu og kunnáttu hin síðustu ár á trúarlegri tónlist fyrir börn og unglinga. Á bak við hugmyndina BÖRN SYNGJA FYRIR BÖRN er sú sannfæring okkar sem að verkefninu standa að mikilvægt sé að fjölga möguleikum barna og unglinga til að taka þátt í samstarfi með einstaklingum á sama reki sem búa þó við aðrar aðstæður (t.d. Akureyri vs. sveit). Öll umræða um fjölmenningu og átak í þeim efnum er sem hjóm ef okkur tekst ekki einu sinni að skapa samstöðu milli hópa barna og unglinga sem búa jafnvel í sama sveitarfélagi. Söngur er tilvalið tæki til þess að efla samstöðu og einingu meðal fólks þar sem allir stefna að einu markmiði: Ná að syngja lagið saman. Það hópefli sem til verður skapar jákvæða ímynd hjá hverjum einstaklingi. Flest barnanna þekkja söngstarf og eru jafnvel þátttakendur í kórastarfi hver á sínum forsendum og vettvangi. Umsjón með dagskránni ásamt Ástu Magnúsdóttur kórstjóra er í höndum Péturs Björgvins Þorsteinssonar djákna í Glerárkirkju og sér hann meðal annars um fjölbreytta leiki fyrir barnahópana inn á milli þess sem söngurinn ómar af krafti, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast