Ennfremur segir í ályktuninni: "Það má vera ljóst að framundan er aukið atvinnuleysi og öryggi margra ógnað vegna þess. Ungmenni fara ekki varhluta af því, ýmist missa vinnu sjálf eða upplifa atvinnumissi foreldra, nema að hvorutveggja verði. Við verðum að vona að stærri hluti íslenskra ungmenna séu hamingjusöm og úrræðagóð en við vitum jafnframt að sá hópur er til sem glímir við mikla vanlíðan sem á sér margvíslegar orsakir. Því lítum við svo á að breytingar þær sem eiga sér stað á starfsemi geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri, bæði skert staða eina barna- og unglingageðlæknis landsbyggðarinnar og töluvert skert starfsemi dagdeildar geðþjónustunnar, séu í hróplegu ósamræmi við þá tíma sem framundan eru. Ákvarðanir af þessu tagi sýna fádæma lítilsvirðingu og skilningsleysi og við mótmælum þeim harðlega."