Yfir 40 milljónir í söfnun fyrir snjótroðara

Söfnun Skógaræktarfélags Eyfirðinga fyrir nýjum snjótroðara lauk í vikunni. Vel yfir 40 milljónir sö…
Söfnun Skógaræktarfélags Eyfirðinga fyrir nýjum snjótroðara lauk í vikunni. Vel yfir 40 milljónir söfnuðust, gott betur en verðið á nýja troðaranum er. Skógræktarfélagsmenn eru þakklátir fyrir góðar viðtökur. Mynd: Ingólfur Jóhannsson

mth@vikubladid.is

 

„Það var einstakt að upplifa jákvæðnina og ungmennafélagsandann sem sveif yfir vötnum, einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök og sveitarfélög hér á svæðinu lögðu hönd á plóg til að tryggja þetta mikilvæga samfélagsverkefni,“ segir Ingólfur Jóhannesson framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Eyfirðinga en söfnun fyrir nýjum snjórtroðara félagsins lauk í vikunni.

Vel yfir 40 milljónir króna söfnuðust. Félagið mun næsta sumar fá heim á hlað snjótroðara af gerðinni Pisten Bully, búinn öllum þeim besta búnaði sem hentar við norðlenskar aðstæður og segir Ingólfur hann verða mikla búbót.

Ingólfur segir stjórnarfólk í SE líka hafa lagt mikið af mörkum vegna söfnunarinnar, við undirbúning hennar og að framfylgja verkefninu, „og þá vinnu inntu þau af hendi með stóru hjarta.“ Söfnunin var að sögn Ingólfs ævintýri líkust, markmiðið var að safna 35 milljónum, sem er verð troðarans. Það náðist í nóvember, en fé sem umfram er fer í að bæta aðstöðu fyrir troðarann og hýsa hann.

Mikilvæg skógarafurð

„Útivist og lýðheilsa er orðin gríðarmikilvæg skógarafurð og við höfum undanfarin ár upplifað sannkallaða sprengingu í gönguskíðaiðkun. Almenningur er afar meðvitaður um gildi hreyfingar og margir nýta sér stígana í Kjarnaskógi, en við þjónum breiðum hópi fólks, hér er fólk að ganga, hjóla, á skíðum, hundaeigendur nýta stígana og við verðum vör við að auk heimafólks leggja ferðamenn í æ meira mæli leið sína í skóginn,“ segir Ingólfur. Skógurinn skapi enda kjöraðstæður til útivistar, ekki sé óalgengt að norðlenskur snjóavetur bjóði upp á allt að 60 daga þar sem vart er hundi út sigandi, en ágætis skjól sé í skóginum.

Skíðabraut frá Kjarna í Hrafnagil

Auk þess sem fólk nýtir sér stíga í Kjarnaskógi hefur útivistarstígur sem liggur þaðan og fram að Hrafnagili slegið í gegn og æ fleiri nýta sér hann. „Við eru alltaf að bæta við leiðum og þessi stígur inn í Eyjafjarðarsveit er mjög vinsæll. Starfsmenn Skógræktarfélagsins hafa troðið um 10 kílómetra langa skíðabraut sem er á jafnsléttu meðfram malbikuðum stíg sem göngu- og hjólafólk notar,“ segir Ingólfur en á góðviðrisdögum er fjöldinn allur af fólki að nýta þá stíga sem í boði eru og mannlífið blómstrar.“


Athugasemdir

Nýjast