Vill ekki vera með of miklar væntingar til næstu ára

Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri GG hvalaferða.
Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri GG hvalaferða.

Húsavík hefur verið nefnd höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi en á árinu 2023 fóru 131.000 manns í hvalaskoðunarferðir frá Húsavík sem er tæplega 24% aukning frá fyrra ári. Árið 2023 er þar með stærsta árið í hvalaskoðun til þessa en um 110.000 farþegar fóru í hvalaskoðunarferðir frá Húsavík á árunum 2016- 2018.

Fjögur fyrirtæki buðu uppá í hvalaskoðunarferðir á nýliðnu ári en eitt þeirra er Gentle Giants hvalaferðir. Stefán Guðmundsson framkvæmdastjóri félagsins segir í samtali við Vikublaðið að þróunin hafi verið ánægjuleg eftir erfið ár vegna covid faraldursins en segir jafnframt að of snemmt sé að tala um viðsnúning.

„Ég er lítið fyrir það að tala í fyrirsögnum en maður hafði svo sem væntingar til þess að þetta tæki tíma að jafna sig og styrkjast frá covid tímanum og mér sýnis að það hafi verið rétt,“ segir hann og bætir við að nýliðið ár hafi vissulega verið gott með tilliti til komu ferðafólks en enn sé mikil óvissa í ferðaþjónustunni næstu árin miðað við ástandið í heiminum og innanlands.

Blikur á lofti

Amma Helga

„Við höfum verið að einbeita okkur að því að vera ekki með of mikla væntingar til næstu ára því það eru blikur á lofti víða en taka vel og fagnandi á móti því þeim sem vilja og geta komið til okkar. Við erum alltaf að reyna vera hófstillt þegar utanaðkomandi aðstæður eru eins og þær eru, aðstæður sem við getum engu ráðið um,“ segir Stefán og bendir á stríðsátök í Úkraínu og á Gazasvæðinu sem dæmi. „Svo er hálfgert efnahagsstríð innanlands og náttúruhamfarir þar sem stórt sveitarfélag á Reykjanesi er nánast úr leik.“

Gagnrýnir fréttatilkynningar til erlendra fjölmiðla

Aðspurður hvort hann telji að jarðhræringar og eldsumbrot geti haft neikvæð áhrif ferðaþjónustuna á Norðurlandi segir hann að það sé raunverulegur óvissuþáttur sem taka beri alvarlega. Hann hafi sömuleiðis verulegar áhyggjur af ónákvæmum fréttaflutningi erlendra fjölmiðla þar sem víða sé dregin upp sú mynd að allt landið logi hreinlega í eldgosum.

„Ég er búinn að gagnrýna það síðustu vikur og benda á mjög óljósar og óafgerandi fréttatilkynningar frá Íslandsstofu og fleiri ábyrgum aðilum. Þar er ekki tekin eindregin afstaða né réttum skilaboðum komið á framfæri við erlenda fjölmiðla varðandi eldsumbrotin á Reykjanesi. Það er ekkert eðlilegt að sjá fyrirsagnir þar sem að gera engan greinarmun á landshlutum og hafa jafnvel farið út í það að segja að Ísland sé allt rauðglóandi. Það er ekkert tillit tekið til þess að 99,9 prósent af landinu er öruggt og í fínu lagi,“ segir hann og leggur áherslu á að stjórnvöld verði líka að vakna af blundinum hvað varðar flugsamgöngur til landsins til framtíðar.

 Kallar eftir aðgerðum

 „Ég hef auðvita furðað mig á andvaraleysi ríkisstjórnarinnar þegar kemur að meginflugvelli landsins í Keflavík. Mér finnst menn vera algjörlega steinsofandi hvað þetta varðar. Að setja ekki núna, þegar allir helstu eldfjallasérfræðingar séu búnir að vara við því að Reykjanesskaginn sé vaknaður og þetta geti staðið yfir með alls konar umbrotum í áratugi, jafnvel árhundruð. Hvað liggur þá fyrir annað en að byggja upp sambærilega miðstöð alþjóðaflugs á Norðausturhorninu? Við getum ekki afkastað nema í besta falli einum tíunda af því sem Keflavíkurflugvöllur afkastar með Akureyri og Egilsstaði samanlagt. Ég væri löngu búinn að útbúa völl sem gæti leyst Keflavík af með stæl,“ segir Stefán að lokum.


Athugasemdir

Nýjast