Vikublaðið kemur út í dag

Vikublaðið kemur út í dag, fimmtudaginn 10. september og kennir ýmissa grasa í blaði vikunnar. Ferskar fréttir, mannlífsefni og menning og þá verða nýir pistlahöfundar kynntir til leiks.

Meðal efnis í blaðinu:

*Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lýst yfir áhyggjum af þeim störfum sem eru að hverfa úr bænum og nefna t.d lokun Kexsmiðjunnar og Kristjánsbakarís. Þá hafa einnig verið flutt störf suður frá KEA hótelum og Þjóðskrá. Rætt er við Evu Hrund Einarsdóttur bæjarfulltrúa um atvinnumálin í bænum.

*Rekstur Akureyrarbæjar er þungur en halli á aðalsjóðs bæjarins var áætlaður um einn milljarður króna en núna stefnir í að hallinn verði langleiðina í þrjá milljarða króna. Að mati Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra þarf að skoða allan rekstur bæjarins og ljóst að skera þarf niður í þjónustu til að rétta reksturinn af. Vikublaðið ræddi við Ásthildi um stöðu bæjarins.

*Heimsfaraldurinn sem nú geysar hefur valdið umtalsverðu efnahagslegu tjóni ekki síst hjá hinu opinbera. Á Norðurþingi kemur faraldurinn enna verst á rekstri Hafnasjóðs Norðurþings.

*Aðalsteinn Árni Baldursson er líklega best þekktur sem verkalýðsforingi enda verið formaður Framsýnar stéttarfélags lengur en margar kynslóðir muna. Aðalsteinn sem oftast gengur undir nafninu Kúti í nærsamfélaginu, er einnig gangnaforingi í Húsavíkurrétt eða fjallkóngur eins og það er gjarna kallað. Þá er Kúti formaður fjáreigendafélags Húsavíkur og hefur gegnt því embætti lengst af frá stofnun þess 16. júlí 1983. Blaðamaður Vikublaðsins heimsótti Kúta fyrir skemmstu og ræddi við hann um merkileg tímamót.

*Séra Svavar Alfreð Jónsson skrifar pistil í blaðið og þá er Áskorendapenni vikunnar Kristín Vala Breiðfjörð.

*Á fundi sínum þann 25. maí sl. fól fjölskylduráð Norðurþings íþrótta- og tómstundafulltrúa og fræðslufulltrúa að gera kostnaðaráætlun og útfæra hugmyndir að rekstri úrræðis fyrir hljómsveitarstarf unglinga á Húsavík samkvæmt tillögu skólastjóra Tónlistarskóla Húsavíkur. Í samtali við Vikublaðið segir Guðrún Ingimundardóttir skólastjóri Tónlistarskóla Húsavíkur að málið snúist um aðstöðu fyrir nemendur sem eru að læra á popp-hljóðfæri eða svo kölluð rythmísk hljóðfæri til að koma saman og æfa sig.

*Bryndís Fanný er matgæðingur vikunnar og kemur með nokkrar úrvals uppskriftir. 

*Framkvæmdir við fyrsta áfanga flughlaðs á Akureyrarflugvelli hefjast í vikunni þegar byrjað verður á færslu olíutanka og uppsetning nýrrar rotþróar.


Athugasemdir

Nýjast