Vikublaðið kemur út í dag

Vikublaðið kemur út í dag og er blaðið að vanda stútfullt af áhugaverðum fréttum, mannlífi, menningu og íþróttum. Meðal efnis í blaðinu:

*Frá 1. janúar næstkomandi mun Akureyrarbær hætta rekstri Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA) en óvíst er hvaða aðili á vegum ríkisins muni taka við rekstrinum. Þetta kemur fram í aðsendri grein sem Ingi Þór Ágústsson, forstöðumaður Austurhlíðar, Öldrunarheimila Akureyrar, skrifar í blaðinu. Ingi Þór segir í samtali við Vikublaðið að staðan sé alvarleg og segir einnig að margar íbúðir ÖA séu gamlar og óhentugar sem þarfnist viðhalds og endurbóta.

*Nú þegar landsmenn eru í óða önn við að undirbúa jólahaldið í skugga kófsins skoðar Vikublaðið ýmis áhrif af samkomutakmörkunum á jólahald Þingeyinga. Ljóst er að sveitarfélagið Norðurþing hefur aflýst viðburðum sem alla jafna fara fram um jól og áramót. En neyðin kennir naktri konu að spinna eins og sagt er en skapandi lausnir virðast ætla að bjarga vertíðinni.

*Hjónin Benedikt Ingi Grétarsson og Ragnheiður Hreiðarsdóttir hafa rekið Jólagarðinn í Eyjafjarðarsveit í hartnær aldarfjórðung með aðstoð barna sinna. Því er sannarlega um fjölskyldufyrirtæki að ræða. Líkt og hjá öðrum hefur aðdragandi jóla verið öðruvísi en áður hjá þeim hjónum sem láta þó engan bilbug á sér finna; jólin koma hvað sem öllu líður. Vikublaðið setti sig í samband við jólahjónin og spjallaði við þau um Jólagarðinn og jólin.

*Árið 2019 var rekstrarniðurstaða málaflokksins brunavarnir og almannavarnir í Norðurþingi neikvæð um 52 milljónir en útgönguspá fyrir 2020 gerir ráð fyrir staðan verði neikvæð um 81 milljónir króna. Enn fremur gera áætlanir ráð fyrir því að neikvæð staða málaflokksins verði 86 milljónir. Kristján Þór Magnússon segir í samtali við Vikublaðið að munurinn felist fyrst og fremst í því að nýtt húsnæði hafi verið tekið í notkun fyrir slökkviliðið í sveitarfélaginu.

*Sigrún Steinarsdóttir og Sunna Ósk Jakobsdóttir halda úti síðunni Matargjafir á Akureyri og nágrenni á Facebook, en núna fyrir jólin eru fjölmargir sem þurfa á aðstoð að halda. Þær búast við þrefaldri aukningu á milli ára.

*Akureyrska knatt­spyrnu­kon­an Rakel Hönnu­dótt­ir hef­ur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hill­una eftir að hafa spilað með landsliðinu í 13 ár. Hún er þó hvergi nærri hætt í boltanum. Rakel verður 32 árs göm­ul núna í desember og á að baki 103 A-lands­leiki og skorað í þeim níu mörk. Rakel Hönnudóttir er Íþróttamaður vikunnar.

*Hjálmar Bogi Hafliðason hefur umsjón með Matarhorninu þessa vikuna. Hann hefur setið á þingi sem varamaður fyrir Framsóknarflokkinn og er fulltrúi sama flokks í sveitarstjórn Norðurþings. Hann er líka kennari í Borgarhólsskóla, formaður Golfklúbbs Húsavíkur og þegar félagsmálin eru annars vegar, þá er Hjálmar Bogi aldrei langt undan. Það er líka óhætt að segja að hann uni því vel að matur sé framreiddur fyrir hann en er kannski ekki jafn þekktur fyrir að reiða hann fram sjálfur. En þegar um þjóðlegar kræsingar er að ræða þá fremur hann töfrabrögð í eldhúsinu.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að smella hér

 

 


Athugasemdir

Nýjast