Viðburðaríkt, fjölbreytt og umfram allt spennandi starfár fram undan

Eva Hrund Einarsdóttir nýr framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar.
Eva Hrund Einarsdóttir nýr framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar.

mth@vikubladid.is

„Þetta er ofsalega gaman. Nú er allt komið á fullt og fjölbreyttir viðburðir fram undan auk þess sem Hof hefur fyllst af lífi að nýju enda mikið um ráðstefnur og fundi í húsinu,“ segir Eva Hrund Einarsdóttir nýr framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar.

Starfsár Menningarfélagsins var kynnt fyrir helgi og er dagskráin svo sannarlega spennandi. „Ég get ekki beðið eftir að sjá söngleikinn Chicago sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir í janúar 2023,“ segir Eva Hrund en Marta Nordal, leikhússtjóri LA, mun leikstýra söngleiknum. „Söngkonan Jóhanna Guðrún leikur Velmu og það er afar gleðilegt að fá hana til okkar. Þórdís Björk Þorfinnsdóttir verður hjá okkur áfram en hún mun leika hitt stóra hlutverkið, nýstirnið Roxý. Það verður áhugavert að sjá Dídí mannabarn í því hlutverki,“ segir Eva Hrund og bætir við að einnig sé fengur í að hafa fengið Margréti Eir Hjartardóttur í söngleikinn auk fjölda hæfileikafólks, bæði dansara og leikara en til að mynda verður sjálfur Lee Proud með danshreyfingarnar.

Einleikir áberandi á haustdögum

Starfsár Leikfélags Akureyrar hefst hins vegar núna strax í byrjun september þegar LA frumsýnir verkið Hamingjudaga eftir Beckett. Með aðal hlutverkið fer Edda Björg Eyjólfsdóttir en auk hennar leikur Árni Pétur Guðjónsson í sýningunni. „Þetta verk má enginn láta fram hjá sér fara. Sýningin fer fram í Svarta Boxinu í Hofi en aðeins verða fjórar sýningar hér fyrir norðan áður en sýningin heldur suður yfir heiðar og verður sett upp í Borgarleikhúsinu,“ segir Eva sem segir haustið tileinkað einleikjum þar sem gesta-einleikir á borð við Góðan daginn, faggi, Líf og Fíflið taki yfir Samkomuhúsið. Þar að auki má nefna Fjölskyldufjör með Halla, Góa og Jóni Ólafs sem fram fer í Samkomuhúsinu um næstu helgi.

Anna Maria stjórnar SN aftur

Starfsárið hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hófst strax á Akureyrarvöku þegar blásarakvintettinn Norð-Austan 5 bauð gestum og gangandi í Hofi á Akureyrarvöku upp á Pop Up tónleika. Sunnudaginn 18. september er komið að klassíkinni þegar hinn heimsfrægi hljómsveitarstjórinn Anna Maria Helsing mætir aftur í Hof til að stjórna sveitinni flytja síðustu sinfóníu Haydn og fyrstu sinfóníu Beethoven.

JóiPé og Króli með Sinfónuhljómsveitinni

„Svo vendum við okkar kvæði í kross og bjóðum upp á spennandi og öðruvísi dagskrá rapp og sinfóníu þegar tónlistarmennirnir JóiPé og Króli koma fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á tónleikunum Bless í bili sem fram fara í Hamraborg í lok október. „Þarna ætla þeir félagar, Jóipé og Króli, að fara yfir sex síðustu ár því nú er komið að tímamótum – Króli er að fara í skóla og Jói að einbeita sér að sólóferli sínum. Það verður því einstaklega gaman að sjá öll þessi þekktu lög þeirra flutt í síðasta skipti í bili og hvað þá með heilli sinfóníuhljómsveit en tónskáldið og hljómsveitarstjórinn Þórður Magnússon hefur unnið með strákunum að sinfónískum útsendingum af lögunum þeirra.“

Loksins Nýjárstónleikar

Í janúar er komið að Nýárstónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands en beðið hefur verið eftir þeim viðburði í nokkurn tíma vegna frestana út af heimsfaraldrinum. „Þetta verða glæsilegir tónleikar undir stjórn Daníels Þorsteinssonar með stórsöngvurunum Þóru Einarsdóttur, Andra Birni Róbertssyni, Hönnu Dóru Sturludóttur og Degi Þorgrímsson. Á tónleikunum verður einnig frumflutt Fantasía um Ólaf Liljurós sem Michael Jón Clarke samdi í tilefni tónleikanna,“ segir Eva Hrund og bætir við að seinna í janúar sé svo komið að áðurnefnda söngleiknum Chicago.

Páskatónleikar og stofutónlist

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur haft þann vana á að halda veglega páskatónleika og á næstu páskum verður engin breyting þar á þegar Bjarni Frímann Bjarnason stjórnar þegar sveitin flytur nokkrar af fegurstu verkum Bach og hinn stórmerkilega Concerto Grosso eftir Alfred Schnittke. Í maí er svo komið að Steinunni Arnbjörgu og stofutónlistinni. „Steinunn Arnbjörg er afkastamikið tónskáld og fær hér frjálsar hendur til að sníða efnisskrá eftir sínu höfði. Það er því ljóst að framundan er viðburðaríkt, fjölbreytt og umfram allt spennandi starfár hjá Menningarfélaginu þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Eva Hrund og börnin verða þar svo sannarlega ekki undanskilin en leiklistarskólinn fer af stað um miðjan steptember, síðan verða skólatónleikar og barnamorgnar svo eitthvað sé nefnt. Þeir sem vilja kynna sér dagskránna nánar er hana að finna á vefsíðu Menningarfélagsins.


Athugasemdir

Nýjast