„Við reynum hvað við getum til að gera sem allra mest fyrir okkar félagsmenn“

Marta ásamt Herði Óskarsson sem styrkir félagið árlega til minningu um Sigga bróðir sinn
Marta ásamt Herði Óskarsson sem styrkir félagið árlega til minningu um Sigga bróðir sinn

mth@vikubladid.is

„Þetta hefur verið ótrúlega góður mánuður, annasamur en virkilega skemmtilegur,“ segir Marta Kristín Rósudóttir verkefnastjóri hjá Krabbameinsfélagið Akureyrar og nágrennis. Bleikur október er senn á enda en í þeim mánuði er sjónum beint að krabbameinum hjá konum. Um er að ræða árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélags Íslands.

Marta segir Dekurdaga sem haldnir eru á Akureyri marka upphafið að bleikum október, en sá viðburður hefur um árin reynst Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrenni einkar vel. Í fyrra afhentu Inga og Vilborg sem eru á bakvið Dekurdaga félaginu 4,3 milljónir. „Dekurdagarnir eru einn stærsti stuðningsaðili okkar og framlagið hefur vaxið ár frá ári, byrjaði á hálfri milljón og þótti gott, en síðan hefur upphæðin hækkað,“ segir hún og bendir á að félagið sé rekið fyrir sjálfaflafé. „Við reiðum okkur á framlög frá almenningi og fyrirtækjum og fáum einnig fé úr Velunnarasjóði Krabbameinsfélagsins. Það halda margir að við séum rekin með stuðning frá Akureyrarbæ en það erum við ekki en önnur sveitarfélög í kring hafa stundum gefið okkur staka styrki“.

Bleikur 2022

Marta Kristín Rósudóttir verkefnastjóri hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis segir oft erfitt fyrir fólk að taka fyrsta skrefið en hvetur þá sem nýtt geta sér þjónustu félagsins að hafa samband. Mynd/MÞÞ.

 Fjölbreytt þjónusta í boði

Tveir starfsmenn starfa hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis og segir Marta að félagið veiti einstaklingum sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum þeirra fjölbreytta þjónustu. „Við bjóðum upp á stuðning og ráðgjöf í formi viðtala, skjólstæðingum að kostnaðarlausu, en einnig eru reglulega í boði fjölbreytt námskeið, fræðslufyrirlestrar og einnig erum við með jafningjastuðning, bæði í kvenna- og karlahópum auk ýmissa viðburða.“

Nú í nóvember eru nokkur námskeið í boði hjá félaginu og má þá helst nefna námskeið fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein eða nýlokið krabbameinslyfjameðferð. Námskeiðin eru kennd í karla- og kvennahópum og eru vettvangur til að hitta jafningja og fá fræðslu frá fagfólki.

Að auki hefur félagið verið í samvinnu við Eirberg sem Marta segir alls ekki sjálfsagðan hlut, en hún felst ma í því að hjúkrunarfræðingur aðstoðar konur sem farið hafa í fleygskurð eða brjóstnám með ráðleggingar um gervibrjóst, brjóstahaldara og ermar til að meðhöndla soðæðabjúg.

Góður stuðningur frá samfélaginu

Bleikur 2022

Inga Vestmann og Vilborg afhenda Selmu Sigurjónsdóttur úr stjórn styrkinn á Dekurdögum í fyrra. 

 „Við reynum hvað við getum til að gera sem allra mest fyrir okkar félagsmenn. Sá stuðningur sem við fáum frá samfélaginu gerir það að verkum að við getum boðið upp fjölbreytta þjónustu, okkar félagsmönnum að kostnaðarlausu. Við verðum vör við mikið þakklæti fyrir okkar starf og það er vissulega mjög gefandi,“ segir Marta.

Hún segir að október sé helgaður krabbameini í konum, en í mars sé átakið mottamars sem beini sjónum að körlum og krabbameini. „Það hefur sýnt sig að þegar átak er í gangi verður vitundarvakning, við finnum það bara á því að fleiri hafa samband við okkur, þannig að þetta er af hinu góða. Karlar hafa yfirleitt verið lengur að sækjast eftir þjónustu, þeir eru meira á því að tækla þetta bara sjálfir og óþarfi sé að ræða málin við aðra. Sem betur fer er það sjónarmið aðeins á undanhaldi og það er jákvæð breyting,“ segir Marta.

Styrkur vegna dvalar í Reykjavík

Hún nefnir að mikilvægt sé að bjóða upp á þessa þjónustu norðan heiða, en vissulega sé margt sem sækja þurfi suður. Krabbameinsfélagið á 8 íbúðir í Reykjavík sem leigðar eru út til félagsmanna sem á þurfa að halda gegn vægu verði. Einnig er til staðar sjúkrahótel í Reykjavík sem er hægt að nýta sér. Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis styður við sína félagsmenn með því að greiða hluta af þessum kostnað ef þess er óskað.

Marta nefnir að það geti oft verið fólki erfitt að taka sín fyrstu skref og koma til félagins „Ég vil hvetja þá sem gætu nýtt sér þjónustu Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis til þess að hringja í okkur eða kíkja í kaffi,“ segir hún og bendir einnig að fyrsta skrefið gæti verið að skoða vefsíðu félagsins þar sem er að finna allar upplýsingar um fjölbreytta starfsemi þess.

Bleikur 2021

 

 


Athugasemdir

Nýjast