„Við erum ótrúlega stolt af þessu verkefni“

Harpa á sviðinu í Húsavíkurkirkju á sunnudag. Hilmar Friðjónsson tók myndirnar.
Harpa á sviðinu í Húsavíkurkirkju á sunnudag. Hilmar Friðjónsson tók myndirnar.

 Á sunnudag í síðustu viku stóð Tónasmiðjan fyrir glæsilegri tónleikasýningu í Húsavíkurkirkju í tilefni að alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga, 10. september. Tónleikarnir voru hinir glæsilegustu og jafnframt þeir stærstu sem Tónasmiðjan hefur komið að til þessa. Í kjölfar tónleikanna afhentu fulltrúar Tónasmiðjunnar Píetasamtökunum 200 þúsund króna styrk en samtökin opnuðu nýverið Píeta-skjól á Húsavík.

 Staðið vaktina í sjö ár

Frændsystkinin Elvar Bragason og Harpa Steingrímsdóttir hófu starf Tónasmiðjunnar í Norðurþingi fyrir sjö árum síðan og hafa síðan komið að fjölmörgum tónlistarverkefnum í sveitarfélaginu ásamt því að bjóða upp á frábært starf og félagsskap fyrir tónlistarfólk á öllum aldri.

Tónleikarnir á sunnudag „Aðeins eitt líf“ eru þeir sjöttu í röð sem haldnir eru í tengslum við forvarnardag sjálfsvíga á ári hverju í Húsavíkurkirkju. Harpa Steingrímsdóttir segir í samtali við Vikublaðið að tónleikarnir hafi verið frábærir í alla staði og stórkostlegur hápunktur þessa verkefnis sem þau kalla „Aðeins eitt líf.“

 Gott að styrkja þarft starf

„Við erum ótrúlega stolt af þessu verkefni og það skemmtu sér allir konunglega á tónleikunum, bæði flytjendur og áhorfendur,“ segir Harpa og bætir við að Tónasmiðjan hafi styrkt Píeta samtökin um 200 þúsund að loknum tónleikunum.  

„Þetta er auðvitað forvarnardagur sjálfsvíga þess vegna liggur beinast við að við Píeta samtökin um 200 þúsund og það rennur til Skjólsins sem nýverið var opnað á Húsavík,“ útskýrir Harpa en þetta er ekki í fyrsta sinn sem Tónasmiðjan styrkir Píeta samtökin í tengslum við „Aðeins eitt líf“ verkefnið en eftir síðustu fjóra tónleika í tengslum við 10. september hefur Tónasmiðjan nú styrkt samtökin um eina milljón króna.

„Það er geggjað að geta afhent þeim þessa peninga á þessum degi. Þetta skiptir þau svo miklu máli, eins og þau segja sjálf. Þessi samtök ganga á styrkjum frá einstaklingum og félagasamtökum, þetta er því stórt fyrir þetta starf að fá þetta frá okkur. Og það var sérstaklega ánægjulegt að geta styrkt þau sérstaklega hér á Húsavík,“ segir Harpa og bætir við að þetta hafi verið stærstu tónleikar Tónasmiðjunnar til þessa.

Stærstu tónleikarnir til þessa

Pálmi

„Við höfum aldrei verið jafn mörg á sviðinu. Það var mjög þröngt á þingi á kirkjutröppunum eða sviðinu í fallegu kirkjunni okkar. Við vorum 16 í bara í bakröddum, vel yfir 30 manns sem tóku þátt í þessari tónlistarveislu alls og aldrei verið fleiri áhorfendur,“ segir Harpa en flytjendur voru á öllum aldri. Sá yngsti sjö ára og sá elsti 75 ára. Heiðursgestur tónleikanna var enginn annar en Pálmi Gunnarsson.

Harpa segir að það liggi auðvitað mikil vinna á bak við svona stórtónleika. Undirbúningur sé vissulega krefjandi en um leið afskaplega gefandi.

Mikil vinna á bak við tjöldin

„Þegar við erum að hefja undirbúning fyrir  svona tónleika þá erum við að hittast einu sinni í viku í æfingahúsnæði okkar en fljótlega fer það í tvisvar í viku. Þetta æðislegt og margir komið að þessu í gegnum tíðina,“ útskýrir Harpa.

Tónasmiðjan hefur unnið frábært starf í samfélaginu á þessum árum sem hún hefur verði starfandi. Á þessum tíma eru fjölmargir einstaklingar, bæði börn og fullorðnir sem hafa fengið sín fyrstu tækifæri til að stíga á svið og vaxa og þroskast sem tónlistarfólk.

„Ég finn það líka, ekki síður með okkur sem eldri erum, hvað þetta er góður félagsskapur. Að koma saman, spila og syngja. Þetta er ótrúlega gaman. Svo er svo gaman að fylgjast með krökkunum okkar sem eru þetta 17 – 19 ára í dag og eru búin að vera með okkur  frá upphafi og eru enn að. Þau voru bara smábörn þegar þau byrjuðu,“ segir Harpa og bætir við að þegar sé farið að huga að næstu tónleikasýningu en árlega stendur Tónasmiðjan fyrir jólatónleikum til styrktar Velferðarsjóði Þingeyinga.

 Skjól á Húsavík

Píetasamtökin opnuðu í ágúst svo kallað „Píetaskjól“ á Húsavík en samtökin munu hafa aðstöðu í stjórnsýsluhúsinu á Húsavík til að taka á móti skjólstæðingum.

Gunnhildur Ólafsdóttir fagstjóri Píeta samtakanna flutti kynningu á starfsemi samtakanna og veitti Tónasmiðjunni viðurkenningu fyrir flott starf í þágu samtakanna á Húsavík.

Karen Elsu Bjarnadóttir sálfræðingur Píeta segir að þetta hafi verið mikið heillaskref. „Skjólið hefur fengið frábærar viðtökur. Maður heyrir það í kringum sig að fólk er mjög ánægt með þetta framtak og það er nýting á úrræðinu. Við fórum af stað með þetta þannig að það er hálfur dagur hér á Húsavík en svo er restin á Akureyri. Það var ákveðið að byrja smátt en svo verður það skoðað í framtíðinni að auka við þjónustuna eftir þörfum,“ segir hún en Píeta samtökin bjóða upp á meðferð fyrir einstaklinga með sjálfsvígshugsanir, eru með sjálfskaða og/eða eru í sjálfsvígshættu. Einnig bjóða Píeta samtökin upp á viðtöl fyrir aðstandendur fólks í hættu og aðstandendur sem hafa misst ástvini.

Eftir opnun Píeta á Íslandi árið 2018 hefur eftirspurn eftir þjónustu samtakanna aukist gríðarlega. Opnun Píeta á Húsavík er liður í því að breiða út þjónustu samtakanna eins og unnt er. Píeta samtökin veita fyrstu hjálp, aðgengilega þjónustu, stuðning og meðferð fyrir þá sem eru í sjálfsvígshættu og brú í úrræði fyrir aðra. Þjónustan er með öllu gjaldfrjáls og stendur til boða öllum þeim sem hafa náð átján ára aldri.

Þakklæti ofarlega í huga

P´æierta skj

Karen segist afar þakklát Tónasmiðjunni fyrir þeirra framlag til samtakanna í gegnum tíðina. „Þetta er ótrúlega mikils virði. Píeta samtökin væri ekki til staðar nema fyrir þátttöku samfélagsins. Þannig að þetta skiptir gríðarlegu máli og líka bara fyrir krakkana sem eru að taka þátt. Þarna fá þau jákvæða virkni og þátttöku í þessu flotta starfi,“ segir Karen að lokum.

Píeta síminn er opinn allan sólarhringinn og hægt er að bóka viðtöl í síma 552-2218 alla virka daga milli 09:00 - 16:00.  Það er alltaf von. 

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast