Útgefandi verður rithöfundur og gefur út bók hjá forlaginu sem hann stofnaði

mth@vikubladid.is

Salka hefur gefið út bókina Ástin á Laxá, Hermóður í Árnesi og átökin miklu eftir Hildi Hermóðsdóttur, stofnanda Sölku. Eigendur Sölku eru Anna Lea Friðriksdóttir og Dögg Hjaltalín en þær keyptu útgáfuna af Hildi fyrir rúmum sjö árum og má nú segja að hringnum sé lokað þegar fyrrum útgefandinn er orðinn höfundur á mála hjá sínu gamla forlagi.

Bókin Ástin á Laxá - Hermóður í Árnesi og átökin miklu er sagan af því þegar Þingeyingar tóku til sinna ráða til verndar náttúrunni og sprengdu stíflu í Laxá með dýnamíti í eigu virkjunarinnar. Einnig er sögð saga Hermóðs í Árnesi og hans þætti í baráttunni miklu fyrir verndun Laxár og Mývatns. Bókin fangar ástina á náttúrunni og bregður upp myndum af fólkinu sem verndaði hana með samheldni og eldmóð að vopni en hún er eftir Hildi Hermóðsdóttur. 

Í ágúst 1970 átti sér stað atburður sem vakti athygli alþjóðar og jafnvel út fyrir landsteinana. Þá tóku Þingeyingar til sinna ráða eftir áralanga baráttu gegn fyrirhugaðri stórvirkjun í Laxá með tilheyrandi vatnaflutningum og sprengdu stíflu sem virkjunaraðilar höfðu reist í Miðkvísl og notuðu til þess dýnamít í eigu virkjunarinnar. Verknaðurinn olli straumhvörfum í deilunni og er sagan rakin á síðum þessarar bókar. Megináhersla er lögð á aðkomu Hermóðs Guðmundssonar í Árnesi og hans þátt í baráttunni miklu fyrir verndun Laxár og Mývatns þar sem hann var í fylkingarbrjósti. Hermóður fór gjarnan ótroðnar slóðir og lét sig ótalmörg málefni varða. Einkum mál sem vörðuðu framfarir, hag íslenskra bænda, náttúruvernd og raunar hvers kyns samfélagsmál. Hann var uppi á tímum mikilla þjóðfélagsbreytinga, upprunninn í hinu rótgróna íslenska bændasamfélagi sem hann tók af fullum krafti þátt í að umbylta að hætti nútímans.

Hildur segir sögu fjölskyldu sinnar og sveitunga á ljóslifandi hátt í Ástinni á Laxá. Hún fangar ástina á náttúrunni og bregður upp myndum af fólkinu sem verndaði hana með samheldni og eldmóð að vopni.

 


Athugasemdir

Nýjast