Upphæðin lögð inn í neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn í Úkraínu

Ungir listamenn, þeir Helgi Hrafn Magnússon og Kjartan Gestur Guðmundsson hafa teiknað myndir af Nik…
Ungir listamenn, þeir Helgi Hrafn Magnússon og Kjartan Gestur Guðmundsson hafa teiknað myndir af Nike skóm í eigin útfærslu og farið með á milli manna og selt, en ágóðinn var lagður inn á neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Úkraínu. Nike á Íslandi keypti myndir eftir strákana og fór upphæðin, 200 þúsund krónur einnig inn í þá söfnun. Drengirnir voru ánægðir með þau viðskipti og einkum að börn í neyð nytu góðs af listrænum hæfileikum þeirra. Mynd/MÞÞ
Margrét Þóra Þórsdóttir
mth@vikubladid.is

 

Vinirnir Helgi Hrafn Magnússon og Kjartan Gestur Guðmundsson sem eru í 4. bekk í Brekkuskóla voru hæstánægðir þegar þeir mættu í athöfn í Hofi þar sem Kolbrún Pálína Helgadóttir starfsmaður hjá Icepharma, sem hefur umboð fyrir Nike á Íslandi afhenti þeim glænýja hvíta Nike skó og fleira, en aðalmálið var að félagið keypti myndir sem piltarnir höfðu teiknað og fór andvirðið í söfnun fyrir börn í Úkraínu.

Tilefnið er að félagarnir höfðu teiknað myndir þar sem skór af þeirri tegund komu við sögu, gengið með þær um miðbæinn á Akureyri, í verslanir og kaffihús og boðið til sölu. Gekk þeim alveg prýðilega vel og seldu myndir fyrir 26 þúsund krónur sem þeir síðan lögðu inn til neyðarsöfnunar UNICEF á Íslandi fyrir börn í Úkraínu.

Kolbrún segir að það hefði vakið athygli meðal starfsmanna Nike á Íslandi að megnið af myndum strákanna voru af Nike skóm, en strákarnir hafa á þeim dálæti. Þannig hafa þeir tekið sig til og skreytt nokkur skópör, en við þá iðju kviknaði hugmyndin um að það væri sniðugt og aðeins ódýrara áhugamál að teikna og hanna eigin skó á blaði.

Þeir Helgi Hrafn og Kjartan Gestur eru báðir miklir teiknarar og hafa gaman af því að hanna föt og hluti, eru listrænir og finnst jafnvel koma til greina að verða listamenn er fram líða stundir.

200 þúsund í neyðarsöfnun

„Það er mjög gaman af þessu,“ segir Kolbrún og velti fyrir sér hvort ekki væri spennandi að snúa dæminu við, þannig að Nike hannaði skó eftir teikningum strákanna. Hún segir Nike leggja samfélagsmálum lið og gerðu það með kaupum á verkum eftir Helga og Kjartan. Tvær myndir voru keyptar, hvor um sig á 100 þúsund krónur þannig að þeir afhentu stoltir til viðbótar við fyrra framlag 200 þúsund krónur í söfnunina. Kolbrún segir að féð muni án efa nýtast vel í þeim umfangsmiklu verkefnum sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna stendur fyrir í Úkraínu og við landamæri nágrannaríkja. Nýverið voru til að mynda afhent um 62 tonn af hjálpargögnum í Lviv í vesturhluta Úkraínu á vegum UNICEF. Fulltrúar frá samtökunum eru á vettvangi m.a. til að tryggja hreint vatn, heilbrigðisþjónustu, skólagögn, félagslega sálfræðiþjónustu og fjárhagsaðstoð.

Þá hefur Bláa punktakerfið verið virkjað en það snýst um að taka á móti fólki sem flúið hefur Úkraínu. Blái punkturinn er miðstöð þar sem tekið er á móti börnum og fólki á flótta, barnvæn svæði þar sem býður upp á skjól og vernd. Bláu punktarnir eru mikilvægir til að bera kennsl á fylgdarlaus börn sem orðið hafa viðskila við fjölskyldur sínar.


Athugasemdir

Nýjast