„Undir okkur sjálfum komið að búa eitthvað til“

Gunnar (lengst til vinstri) leiðsegir litlum hópi, fjölskyldu frá Kanada í byrjun vikunnar. Myndir/e…
Gunnar (lengst til vinstri) leiðsegir litlum hópi, fjölskyldu frá Kanada í byrjun vikunnar. Myndir/epe

Þegar ég var að alast upp á Húsavík á ofanverðri síðustu öld var bærinn talsvert frábrugðinn því sem hann er í dag. Í barnshuga mínum var Húsavík einn af stærstu bæjum landsins og klárlega sá besti. En auðvitað var Húsavík ekkert annað en ekta íslenskt sjávarþorp þar sem fiskiútgerð og Kaupfélagið var allt í öllu. Einu ferðamennirnir sem sáust í bænum voru „nískir“ þjóðverjar á hjólum með bakpokana sína sem voru yfirleitt að flýta sér eitthvað annað. Ef þeir stoppuðu í bænum yfir höfuð, þá sá maður þá gjarna fyrir utan Kaupfélagið vera súpa Húsavíkurjógúrt beint úr fernunni; sem þá var framleitt í bænum.

Fyrir ungan dreng sem elst upp í sjávarþorpi, liggur beinast við að fyrstu skref mín á almennum vinnumarkaði hafi verið fyrir neðan bakkann. Þar lærði ég að gera að fiski og fletja, hjá frænda mínum, afa og auðvitað Halli í Korra hf. Það var líka á kaffistofunni í Korra að ég varð vitni að upphafinu að ferðamannabænum Húsavík; þegar Norðursiglingarmenn sigldu með sína fyrstu ferðamenn úr höfn til að skoða hvali. Þetta þótti trillukörlunum sem drukku kaffið sitt með okkur skondið og ekki laust við að þeir hafi flissað ofan í bollan sinn.

Í dag er fiskiútgerð aðeins í mýflugumynd miðað við það sem þá var og Kaupfélagið er löngu horfið á vit feðra sinna. Húsavík er í dag einn mesti ferðaþjónustubær á landsbyggðinni og þar hefur hvalaskoðun verið í forystuhlutverki. Það er lítið flissað af því í dag.

 Fjölbreytt afþreying

Þó hvalaskoðun sé eflaust það fyrsta sem mörgum Íslendingum dettur í hug þegar þeir heyra minnst á Húsavík þá hefur bærinn upp á margt annað að bjóða.

Undan farin ár hefur komum skemmtiferðaskipa fjölgað gríðarlega og einn þeirra sem hefur séð tækifæri í þeirri auðlind er Gunnar Jóhannesson, eigandi Travel North.

Gönguferðir með leiðsögn hafa verið í boði á Húsavík undanfarin ár. Travel North, sem er með aðsetur í Kaupfélagshúsinu að Garðarsbraut 5 býður upp á slíkar ferðir þó  aðrir hafi byrjað fyrr, og það hefur verið nóg að gera í sumar í þessum bransa.

Göngur Travel North

„Í síðustu viku vorum við með 100 manns bara úr einu skipi og önnur eins bókun í þessari viku,“ segir Gunnar og bætir við að hann sjálfur ásamt starfsfólki fyrirtækisins taki að sér leiðsögn í gönguferðunum en sjö manns starfa hjá fyrirtækinu. Gunnar segir að mikill kippur hafi komið í gönguferðirnar á síðasta ári og líklega hafi heimsfaraldurinn haft þar eitthvað að segja.  „Skipin sem komu í fyrra voru að leita að einhverju öðru en hefðbundnum rútuferðum, einhverju styttra hér í bænum. Það var talsvert mikið stökk í fyrra en tiltölulega fáir árið áður. Við erum ekki með hópa í hverju skipi en í sumum þeirra virðist þetta vera ganga mjög vel,“ útskýrir hann og fer ekki leynt með að sá gríðarlegi fjöldi ferðamanna sem koma til Húsavíkur með skemmtiferðaskipunum sé að mörgu leiti óplægður akur í ferðaþjónustunni. Það sé undir okkur sjálfum komið að búa eitthvað til sem höfðar til þeirra.

 Að koma auga á tækifærin

Oft hefur maður heyrt í umræðunni að ferðamenn í skemmtiferðaskipum skilji lítið eftir sig í samfélaginu, þar sem þeir fari flestir beint upp í rútu og út úr bænum. Þessu er Gunnar ekki sammála og bendir jafnframt á að rútufyrirtækin séu líka með starfsfólk á sínum snærum, þannig skili þessir ferðamenn einhverju til samfélagsins þegar þeir fari í rútuferðir.  

„Hins vegar er það undir okkur komið að búa eitthvað til sem þessir ferðamenn sækja í. Bara sem dæmi, í skipi sem kom á laugardaginn, þá voru sárafáir sem fóru upp í bíl og keyrðu eitthvað. Það komu 100 manns í göngu með okkur. Einhverjir fóru í stutta bæjargöngu og svo í sjóböðin svo veit ég að það fóru um 100 manns í hvalaskoðun. Þetta fólk var hér í bænum að lang mestu leiti og nýtir þá þjónustu sem er í boði. Ég held að sum skipin, sérstaklega þau sem eru með allt innifalið, þessi þjónusta passar vel fyrir þau. Stóru skipin eru meira með rútuferðir og slíkt. Þetta snýst allt um að það sé eitthvað í boði,“ útskýrir Gunnar og bætir við að þessar sögugöngur séu gott dæmi um að hægt sé að búa eitthvað til úr engu.

 Dásamlegur staður

Göngur Travel North

„Húsavík hefur bara upp á svo margt að bjóða í þessum gönguferðum, bæði í sögu og svo höfum við fínt bæjarland til að sýna. Um daginn vorum við með hjón í einum hópnum sem sýndi þessu mjög mikinn áhuga og þökkuðu kærlega fyrir sig. Svo í síðustu ferðinni eftir hádegi þá mætti ég þessu fólki í Skrúðgarðinum, því ég hafði hvatt þau til að ganga lengra og alveg upp að Botnsvatni. Þau tóku mig bara á orðinu og fóru í langa gönguferð. Þetta er gott dæmi um hvað Húsavík er dásamlegur staður,“ segir Gunnar.

Gunnar segir að það sé búinn að vera hægur stígandi í þessu undanfarin ár að undanskildu 2020 og að veruleg aukning hafi verið í fyrra eins og hann hefur áður komið inn á. „Þátttakendur eru bæði úr skemmtiferðaskipum en einnig þeir sem eru á ferðinni og vilja kynnast staðnum með þessu hætti, að taka stutta göngu og fá um leið fróðleik og tækifæri til að spyrja og spjalla. Áherslan er jafnan á hafnarsvæðið, miðbæinn og skrúðgarðinn,“ segir hann og bætir við að dæmi séu um 4-5 brottfarir yfir daginn í sama skipinu. En Leiðsögnin fer fram á ensku.  

„Við erum með hefðbundna bæjargöngu sem tekur 1-1,5 klst. en svo erum við vön að aðlaga tímasetningar eða innihald t.d. flétta saman bæjargöngu og svo farið í Sjóböðin,“ segir Gunnar.

 Eurovisionbærinn trekkir

Gunnar lét heldur ekki framhjá sér fara þá gríðarlegu kynningu sem Húsavík fékk í kjölfar Netflixmyndar Will Ferrels sem tekin var upp að hluta í bænum. „Í framhaldi af Eurovision Fire Saga myndinni ákváðum svo að kynna og bjóða Eurovision Fire Saga göngu þar sem fléttað er saman hefðbundinni bæjarferð með sérstökum stoppum og frásögn á upptökustöðum myndarinnar. Þetta hefur virkað og mun meira bókað í sumar í þessar ferðir en í fyrra og jafnvel dæmi um að fólk hafi komið í dagsferð til Húsavíkur þar sem þemað er Eurovision Fire Saga myndin.“

Fyrir utan stuttar bæjargöngu (sögugöngu) eru lengri gönguferðir í boði hjá Travel North. „Við erum með ágætt stígakerfi og skemmtilegar leiðir og viljum gjarnan sjá enn fleiri njóta þess sem bærinn og nágrenni hans hefur upp á að bjóða. Hvort sem það með okkar aðkomu eða á eigin vegum,“ segir Gunnar að lokum.


Athugasemdir

Nýjast